Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 00:49:02 (2759)


[00:49]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér kemur á óvart að þessar sértekjur sem þarna er gert ráð fyrir að eigi að koma í staðinn fyrir það sem menn ætluðu að hafa í tekjur af sölu veiðiheimilda á þessu ári. Og ég veit ekki með hvaða hætti bókhaldið á að vera í þessu efni. Ég hélt nú að það væri verið að tala um að þessi lög tækju gildi núna um áramótin en þetta er sjálfsagt leið í málinu þó að hún hafi komið mér á óvart.
    Hæstv. sjútvrh. endurtók það hér áðan að það stæði yfir vinnudeila milli sjálfstæðra aðila og það

væri óeðlilegt að hafa afskipti af þeirri deilu. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst ekki boðlegt að bjóða upp á þessi svör. Auðvitað veit hæstv. sjútvrh. að það er ekki verið að hlutast til um þessa deilu með neinum hætti öðrum en þeim sem er skylda hv. Alþingis. Við vitum að þessi deila stendur um kerfi sem Alþingi hefur lögfest. Við vitum að það verður ekki hægt að leysa þetta mál öðruvísi en hv. Alþingi komi þar að nema með því að brjóta sjómenn niður í verkfalli. Brjóta þessa kröfu á bak aftur með verkfalli. Ef Alþingi ætlar ekki að breyta neinu í lögunum um stjórn fiskveiða vegna þessarar deilu þá er það yfirlýsing um að það eigi að brjóta sjómenn niður í þessu verkfalli og þeirra kröfur á bak aftur. Þannig horfir málið við.