Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 00:51:02 (2760)


[00:51]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Sú kjaradeila sem nú á sér stað á rætur að rekja til þess að félög sjómanna hafa borið fram kröfur gagnvart sínum viðsemjendum svo sem þau eiga rétt til lögum samkvæmt. Þau hafa lögbundinn rétt til að bera þessar kröfur fram og fylgja þeim eftir með verkfalli og ég vona að það beri ekki að skilja orð hv. þm. svo að hann vilji að þetta sjálfstæði verkalýðsfélaganna að bera fram kröfur gagnvart sínum vinnuveitendum og fylgja þeim eftir verði af þeim tekið með íhlutun Alþingis. Það mætti ætla af orðum hv. þm. en ég ætla ekki eigi að síður að gera honum þær skoðanir upp heldur fyrst og fremst varpa ljósi á það að málflutningur hans í þessu efni er á villigötum. Deilan er í eðlilegum farvegi eins og sakir standa. Ég held að það geri sér allir grein fyrir því hversu alvarlegt ástand það yrði ef sjávarútvegurinn stöðvaðist vegna vinnudeilna og við skulum vænta þess að samningsaðilar undir forustu sáttasemjara nýti vel þann tíma sem er til áramóta þegar boðað verkfall á að taka gildi. En við skulum líka hafa það í huga að þessir aðilar hafa lögvarinn sjálfstæðan samningsrétt og við skulum ekki gera því skóna að það sé ástæða til að taka þennan rétt af aðilum.
    Höfum það líka í huga að sjómannafélögin kusu að bera fram kröfur sínar gagnvart sínum viðsemjendum og fylgja þeim eftir með verkfallsboðun.