Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 01:05:28 (2766)


[01:05]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú í fullri vinsemd benda hæstv. sjútvrh. á þá staðreynd að það eru enn mjög mörg mál óafgreidd í þinginu sem varða fjárlög ríkisins og ég tel þetta mál ekki vera mál sem varðar fjárlög ríkisins. Ég hefði haldið að hæstv. ríkisstjórn vildi leggja alla áherslu á þau mál. Og það á eftir að halda mikið af nefndarfundum í sambandi við þau og erfitt að koma á nefndarfundi í þessu máli, gæti ég trúað, þannig að það verður að sjálfsögðu að taka tillit til slíkra aðstæðna. Á þetta vildi ég benda og væri skynsamlegast að gera sér grein fyrir því að það er útilokað að reikna með því að þetta mál geti hlotið afgreiðslu fyrir jólahlé þingmanna. Nú er búið að eyða tíma í allt kvöld í það án þess að umræður hafi verið mjög langar, þ.e. þetta mál og annað mál sem liggur á. Það er komið nokkuð fram á nótt og það verður að sjálfsögðu til þess að við þingmenn getum ekki vakað jafnlengi næstu nætur og mun þá líklega verða til þess að stytta þann tíma sem þingið getur starfað næstu daga.