Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins

61. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 01:07:22 (2767)


[01:07]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu mikið af minni hálfu þótt út af fyrir sig væru ærin tilefnin. Ég kem aðallega upp út af þeim spánsku upplýsingum sem komu frá hæstv. sjútvrh. og ég fæ ekki almennilegan botn í að það sé meiningin að ráðstafa þessum fjármunum Verðjöfnunarsjóðs með einhvers konar afturvirkum hætti, aftur á bak inn í fortíðina til þess að fjármagna það gat eða stoppa upp í það gat sem sé eftir þegar búið er að falla frá sölu á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs. Ég skil þetta ekki almennilega satt best að segja. Ber að skilja það svo að Hafrannsóknastofnun hafi verið rekin án heimilda og bara á loftinu þangað til að eftir dúk og disk náðu menn í þessa peninga Verðjöfnunarsjóðs og það sé hægt að bakka þeim yfir í Hafrannsókn. Hefur Jakob Jónsson bara slegið lán eða reitt fram reksturinn úr eigin vasa? Hvernig er þetta eiginlega?
    Ég náði mér í fjáraukalagafrv. og fór að athuga hvernig staðan er gagnvart fjárheimildum Hafrannsóknastofnunar og þá kemur það einfaldlega í ljós að það er búið að afla fjárheimilda í fjáraukalagafrv. til að reka stofnunina, þ.e. dellumakaríinu úr fjárlögunum eins og þeim var lokað annað árið í röð, að það ætti að reka Hafrannsóknastofnun að stórum hluta til með sértekjum sem fengnar yrðu með sölu veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs. Svo gufuðu þær áfram upp eins og við var að búast annað skiptið í röð, og hvað gerist þá? Þá stendur í fjárlögunum fyrir yfirstandandi ár liðurinn 52--58, tölul. 4, sértekjur 322 millj. 900 þús. Og það voru sértekjur Hafrannsóknastofnunar eins og þær áttu að vera af sölu veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs. Síðan kemur tæpast króna í pottinn út úr því og þá er flutt fjáraukalagafrv. af hæstv. ríkisstjórn og aflað 302 millj. í beinu ríkisframlagi inn í rekstur Hafrannsóknastofnunar. Ég veit ekki betur en það sé búið að afgreiða þetta frv. Þá standa eftir sértekjur upp á 22 millj. og ég spyr þá: Í hvaða gat á þessi sala þá að renna? Eða öllu heldur, á þessi sjóður Verðjöfnunarsjóðsins að renna? Ég fæ ekki botn í þetta mál. Nú er lagt hér fram fjárlagafrv. fyrir árið 1994 og það er loksins sett upp með venjubundnum hætti þannig að ríkissjóður kosti rekstur Hafrannsóknastofnunar mínus einhverjar 22 millj. aftur sem þar eiga að vera í sértekjur. Þá spyr ég: Í hvaða rekstur Hafrannsóknastofnunar? Á hvaða ári á þetta að ganga? Er það árið 1992 eða hvað eða er einhvern tíma gat fyrr á öldinni sem á að nota þessa fjármuni til að stoppa upp í? Það er von að spurt sé.
    Ég held að annað sé á ferðinni. Ég held að þetta sé hreinn orðaleikur og beinlínis eigi að gera þessa peninga upptæka í ríkissjóð. Eins og skjölin liggja fyrir okkur verður ekki annað ráðið af uppsetningu fjárlagaheimilda eins og þær eru til rekstrar Hafrannsóknastofnunar. Ég held að hæstv. sjútvrh. verði að skýra þetta betur eigi þetta yfir höfuð að verða niðurstaðan.
    Nú er það svo að það eru engar líkur að mínu mati á því að þetta frv. nái afgreiðslu á þessu ári þannig að það verður komið inn á fjárlagaárið 1994 þegar og ef þetta verður afgreitt þó ekki kæmi annað til en það að um þetta mál er greinilega verulegur ágreiningur þá er vandséð að það fái einhverja flýtiferð hér í gegnum þingið. Menn munu þurfa að skoða það ítarlega vænti ég þannig að ég held að sé svo að ríkisstjórnin hafi reiknað með eða treyst á afgreiðslu þessa frv. og nýtingu þessara fjármuna gagnvart yfirstandandi ári þá verði einfaldlega að hverfa frá þeim áformum og leysa þau útgjaldamál með öðrum hætti. Reyndar sýnist mér að það sé nú þegar búið í fjáraukalögum fyrir yfirstandandi ár þannig að ekki botna ég nú mikið í þessu. En það gefst sjálfsagt einhver betri tími til að skoða.
    Um ráðstöfun þessara fjármuna vísa ég til þess sem ég áður sagði. Ég er andvígur því að þetta hverfi einfaldlega í rekstur Hafrannsóknastofnunar. Ég tel það metnaðarleysi og aumingjaskap ætla ég að leyfa mér að segja, af því að klukkan er farin að ganga tvö, af forsvarsmönnum sjávarútvegsins að gefa það eftir baráttulaust að þessir fjármunir, sem eru auðvitað eign sjávarútvegsins í þeim skilningi að hann hefur lagt þá til, renni með þeim hætti inn í ríkissjóð því að það er auðvitað ekkert annað en hrein eignaupptaka á þessum sjóði. Menn gætu þess vegna alveg eins merkt hann rekstri Tryggingastofnunar eða hvað sem er. Þetta er auðvitað eingöngu eins og þetta er upp sett ætlað til þess að minnka útgjöld ríkissjóðs til rekstrar. Og ég held að sjávarútvegurinn hafi á öðru meiri þörf þessa daga en því að vera að reyta af sér fjaðrir af þessu tagi inn í rekstur ríkissjóðs. Honum veitir ekki af sínu.

    Að öðru leyti vil ég segja það að svör hæstv. ráðherra gagnvart þeim spurningum sem hann hefur fengið voru náttúrlega átakanlega rýr í roðinu og enn er það svo að þrátt fyrir þessar umræður sem hér hafa staðið klukkutímum saman um málefni sjávarútvegsins hefur hæstv. sjútvrh. ekki séð ástæðu til að biðja um orðið. Hann hefur ekki beðið um orðið öðruvísi en í tveimur eða þremur örstuttum andsvörum og það lýsir auðvitað nokkuð vel því sem hæstv. sjútvrh. hefur til málanna að leggja. Það er ekki meira en svo, það er það fátæklegt að honum duga fáein örstutt andsvör til að koma því á framfæri. Og það er sá áhugi sem hæstv. sjútvrh. sýnir þessari umræðu og sú virðing sem hann sýnir þeim mönnum sem hér hafa tekið tíma sinn í það að ræða þessi mál. Að síðustu hljótum við að draga þá ályktun að það sé lýsandi fyrir það sem hæstv. sjútvrh. hefur á þessu stigi til málanna að leggja og það er fátæktarlegt svo að ekki sé meira sagt og rýrt í roði.
    Hæstv. sjútvrh. ver afskiptaleysi sitt gagnvart ástandi mála í sjávarútveginum og yfirvofandi kjaradeilu með því að þetta sé kjaradeila sem sé stjórnvöldum óviðkomandi, ríkisstjórn óviðkomandi og Alþingi óviðkomandi. Til viðbótar liggi það fyrir að hæstv. sjútvrh. hafi af rausn sinni boðið það sl. vor að tala við sjómenn en því hafi ekki verið ansað þannig að hæstv. sjútvrh. telur sem sagt ekki standa mikið upp á sig þó að hann sé að vísu yfirvald sjávarútvegsmála í landinu, þá sé þetta honum óviðkomandi eins og gefið sé í spilið og þetta eigi einfaldlega að leysast við samningaborðið og undir forustu sáttasemjara. En nú liggur það þannig, hæstv. sjútvrh., að það sem er aðalinntak deilunnar hefur þegar verið reynt að leysa með kjarasamningum. Það var gert síðast. Það er í síðastgildandi kjarasamningum milli sjómanna og útvegsmanna að þeir skulu ekki taka þátt í kvótakaupum og reynslan er sú að það ákvæði hefur verið þverbrotið út um allt land og nú eru fyrir dómstólum allmörg dómsmál, málaferli út af slíku, þvingaðri þátttöku sjómanna í kvótakaupum og það gagnvart þessari stöðu, þessari útkomu gildandi laga um stjórn fiskveiða sem sjómannastéttin í landinu er að rísa upp og nýta sér þann eina rétt sem hún hefur til þess að hrinda þessu oki af sér og fara í verkfall. Og menn geta kallað það pólitískt verkfall gagnvart röngum aðila, þ.e. útvegsmönnum en ekki löggjafanum ef því er að skipta, en það vill bara svo til að sjómenn hafa ekki verkfallsrétt gagnvart Alþingi sem slíku. Þetta hljóta menn einfaldlega að skilja og horfast í augu við. Það er óraunsæi eða flótti að fjalla um málið með þeim hætti sem hæstv. sjútvrh. hefur gert, kjarkleysi eða hvað það er, ég veit það bara ekki. Í öllu falli er það svo að veruleikinn mun ekki spyrja um þennan formalisma þegar og ef hann skellur á 1. jan. með allsherjarverkfalli sjómanna. Þá er það ósköp einfaldlega helluverkfall sjómanna og flotinn verður bundin og við það situr og þá mun lítt stoða fyrir hæstv. sjútvrh. að koma hér og segja: Þetta er mér óviðkomandi. Og enn fáránlegra verður það ef hæstv. sjútvrh. ætlar þá að koma og segja: Ég bauð upp á það í vor að það yrði talað við mig en það hefur ekki verið þegið og þar með er ég sýkn mála í þessu efni. Þetta er satt best að segja harla aumingjaleg málsvörn hér af hálfu hæstv. sjútvrh. og ég vænti þess að þeir sjómenn, ef einhverjir eru, sem hafa fylgst með þessari umræðu, a.m.k. forsvarsmenn þeirra væntanlega, séu ekki miklu nær um það hvort einhvers liðsinnis sé að vænta af hálfu yfirvalda sjávarútvegsmála í þessari deilu sem fram undan er.