Vinna í nefndum við frágang fjárlaga o.fl.

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 10:32:22 (2775)


[10:32]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Í upphafi þingfundar í gær sagði hv. 7. þm. Norðurl. e., formaður fjárln., að ástæða þess að ekki væri hægt að hefja á lögboðnum tíma 3. umr. fjárlaga væri sú að efh.- og viðskn. hefði ekki skilað umsögn um tekjugrein fjárlaga. Síðan í fjölmiðlum í gærkvöldi endurtekur formaður fjárln. þessa fullyrðingu sína.

    Nú vil ég að það komi hér skýrt fram að það voru engar forsendur til þess að hefja þá umræðu fyrr en fyrir lægi hvernig stjórnarmeirihlutinn ætlaði að afgreiða skattamálin. Þau mál voru afgreidd út úr nefndinni í gærkvöldi og nefndarmenn höfðu reiknað með því að hefja umfjöllun um tekjugrein fjárlaganna á fundi kl. 8.15 í morgun. Það gerist síðan í gærkvöldi að við fáum tilkynningu frá fjmrh. þess efnis að fjmrn. sé ekki tilbúið til þess að hefja þessa umfjöllun og hún er því ekki hafin enn. Við fórum að vísu yfir drög að nýrri þjóðhagsspá með forstjóra Þjóðhagsstofnunar í morgun, en ég vil, virðulegi forseti, að það komi hér skýrt fram að ástæða þess að umfjöllun efh.- og viðskn. um tekjugrein fjárlaga er ekki hafin er sú að ríkisstjórnin er ekki tilbúin og treysti sér ekki til þess að fara í þá umfjöllun með nefndinni í morgun. Ég vil þess vegna í fullri vinsemd fara fram á það við formann fjárln. að hann komi hér upp og staðfesti þetta og láti af því að kenna því um að efh.- og viðskn. sinni ekki sinni starfsskyldu.