Vinna í nefndum við frágang fjárlaga o.fl.

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 10:37:15 (2777)


[10:37]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Í sambandi við störf þingsins vil ég að það komi fram að það var, eins og hv. 6. þm. Vestf. tók fram, fundarfall hjá fjárln. í morgun eins og svo oft áður. Hv. formaður fjárln. kom í sjónvarpsviðtal í gærkvöldi og sagði sem svo að aðeins væri eftir að fínpússa fjárlögin. Ég er ekki að segja að hv. formaður fjárln. sé ekki allur af vilja gerður til þess að halda áfram vinnu. Ég efast ekkert um það. En ríkisstjórnin er bara ekki tilbúin með sín mál. Þessi fínpússning er í því fólgin að afgreiða öll erindi sem var vísað til 3. umr. Hún er í því fólgin að ganga frá 6. gr. fjárlaga og hún er í því fólgin að ræða um alla tekjuhliðina og fá að vita hvaða peningum á að skipta. Þetta hefðu múrarar a.m.k. fyrir austan kallað grófpússningu a.m.k. ef það hefði ekki verið kallað að rappa. En það er auðvitað mergurinn málsins að ríkisstjórnin er alls ekki tilbúin með þau mál og með niðurstöðu mála hér. Það er það sem er að. Það er ekki verkleysi efh.- og viðskn. eða verkleysi hv. formanns fjárln. Það er ósamkomulag um framgang mála innan stjórnarliðsins sem tefur þingstörf hér.