Vinna í nefndum við frágang fjárlaga o.fl.

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 10:46:07 (2782)


[10:46]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að gefnu tilefni að taka undir það sem hér kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. varðandi árásir formanns fjárln. á fagnefndir þingsins. Það er með ólíkindum hvernig hv. formaður fjárln. hefur komið fram gagnvart fagnefndum, m.a. hv. iðnn. Þannig háttar til að iðnn. skilaði sínu áliti nokkuð seint, m.a. vegna þess að það tók tíma að koma saman áliti nefndarinnar og ná samstöðu um það.
    Ég ætla ekki hér sem formaður iðnn. að greina frá því í einstökum atriðum af hverju það tók svona langan tíma. Það er ekki af hlífð við minn flokk heldur einhverja aðra í nefndinni. Ég mun geyma það til betri tíma að greina frá því í einstökum atriðum af hverju það tók svona langan tíma að koma álitinu saman. En ég taldi mér skylt sem formaður iðnn. að reyna að ná samkomulagi. Hvað gerist þá? Formaður fjárln. hleypur hér upp með skæting í ræðustól á Alþingi og lætur ekki þar við sitja heldur birtir ótrúlegan óhróður um formann iðnn. sérstaklega í einkamálgagni sínu, Alþýðublaðinu, sem einn og einn maður les fyrir utan Alþfl., m.a. við sem höfum Alþýðublaðið sem hluta, eða nauðungarhluta liggur mér við að segja, af okkar kjörum.
    Ég tel hins vegar að þessi vinnubrögð formanns fjárln. séu mjög varasöm. Þau eiga sér ekki fordæmi. Ég kannast ekki við það að formenn fjárln., t.d. núv. hæstv. iðnrh., hafi notað síðustu dagana fyrir jól á undanförnum þingum þegar hann var formaður fjárveitinganefndar til að hjóla í stjórnarandstöðuna. Ég hef reyndar tekið eftir því að í fyrsta sinn núna gerist það að minni hlutinn telur ástæðu til þess að kvarta sérstaklega undan vinnubrögum fjárlaganefndarforustunnar í nefndaráliti minni hlutans sem ég man ekki eftir að hafi gerst um árabil.

    Ég mótmæli þessu, hæstv. forseti, og hvet til þess að forsetinn beiti sér fyrir því að forustumenn í nefndum þingsins tali saman með öðrum hætti en formaður fjárln. hefur beitt sér fyrir að undanförnu.