Vinna í nefndum við frágang fjárlaga o.fl.

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 10:48:24 (2783)


[10:48]
     Sigbjörn Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Aðeins vegna orða hv. þm. Svavars Gestssonar hér á undan. Hann rifjar upp umræður sem fóru fram hér um miðja nótt við 2. umr. fjárlaga þar sem sá sem hér mælir skýrði frá því að því miður hefði álit iðnn. borist seint og um síðir og nefndinni ekki auðnast að fara yfir það álit ásamt öðrum álitum fagnefnda. Það voru einfaldar staðreyndir sem skýrt var frá og ég lít ekki á það sem skæting.
    Síðan hafði hv. þm. orð á því að formaður fjárln. birti óhróður í Alþýðublaðinu. Það er nú svo að formaður fjárln. ber enga ábyrgð sem slíkur á Alþýðublaðinu, ritstýrir því ekki eða hefur þar nokkur áhrif og getur ekki ráðið nokkru um það sem þar er skrifað.