Tekjustofnar sveitarfélaga

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 11:09:36 (2789)


[11:09]
     Frsm. minni hluta félmn. (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nál. minni hluta félmn. sem er á þskj. 407 og er svohljóðandi:
    ,,Minni hluti félagsmálanefndar telur nauðsynlegt að tryggja sveitarfélögunum fasta tekjustofna í stað aðstöðugjalds sem fellt var niður með lögum frá Alþingi á síðasta ári. Það var skattkerfisbreyting sem miðaði að því að bæta samkeppnisaðstöðu fyrirtækja. Samkomulag var um að ríkissjóður bætti sveitarfélögunum tekjumissinn miðað við 80% innheimtu aðstöðugjaldsins og það fyrirkomulag yrði til bráðabirgða í eitt ár, þ.e. árið 1993.
    Mörg atriði þessa frumvarps orka tvímælis og önnur mikilvæg atriði eru óljós. Má þar fyrst nefna að gert er ráð fyrir að útsvarsprósenta hækki úr 7,5% að hámarki í 9,2%. Á móti er gert ráð fyrir lækkun tekjuskatts um 1,5% sem síðan er reyndar hækkaður aftur um 0,35%. Ljóst er að hér er verið að hækka staðgreiðslu einstaklinga um að minnsta kosti 400 milljónir króna, ef tekið er mið af 1,5% lækkun tekjuskatts og 1,7% hækkun útsvars, en 800 milljónir króna ef tekið er mið af 1,15% hækkun tekjuskatts á móti útsvarshækkuninni. Með þessu er ríkisvaldið að auka skattheimtu á einstaklinga og blanda henni inn í þá kerfisbreytingu sem hér um ræðir.
    Minni hlutinn telur útilokað að ganga frá þeim breytingum sem frumvarpið gerir ráð fyrir nema ný reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga liggi fyrir og hægt sé að meta áhrif hennar á tekjur einstakra sveitarfélaga.
    Sveitarfélögunum er samkvæmt frumvarpinu ætlað að hækka fasteignaskatt á atvinnuhúsnæði og er um tvenns konar hækkun að ræða: Í fyrsta lagi hækkar skatturinn úr 1,0% í 1,12%. Í öðru lagi er lagt til að efra þrepið verði í formi álagningar á skrifstofu- og verslunarhúsnæði að hámarki 1,25%. Hér er með bráðabirgðaákvæði verið að flytja skattheimtu á verslunar- og skrifstofuhúsnæði frá ríkinu til sveitarfélaganna og flækja með henni ákvæði um álagningu fasteignagjalda. Er þetta enn eitt dæmi þess að málið er í raun ekki frágengið að hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Landsútsvar fellur niður og er gert ráð fyrir að Jöfnunarsjóður fái framlag úr ríkissjóði til þess að bæta þann tekjumissi. Ekki er gert ráð fyrir að niðurfelling landsútsvars, t.d. af olíuvörum, lækki vöruverð þar sem gert er ráð fyrir hækkun bensíngjalds á móti að upphæð 143 milljónir króna.
    Minni hlutinn telur frv. allt of seint fram komið og ekki hafa fengið þá umfjöllun sem nauðsynleg er. Með því er verið að auka skattheimtu á einstaklinga og fyrirtæki þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um annað. Mikilvæg atriði eins og starfsreglur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga liggja ekki fyrir. Það er ekki góð stjórnsýsla að breyta í sífellu jafnviðkvæmum og flóknum málaflokki og skattamálin óneitanlega eru. Það er því skoðun minni hlutans að mun betur hefði þurft að standa að þessu máli og taka tekjustofnamál sveitarfélaganna til heilstæðrar skoðunar í Alþingi.
    Á síðustu stigum komu tillögur frá ríkisstjórn um að lágmarksálagning útsvars skyldi vera 8,4% og gerði meiri hlutinn þá tillögu að sinni. Með þessum aðgerðum er verið að svipta sveitarfélögin sjálfræði um að slá af sinni útsvarsálagningu. Ekkert tóm gafst til þess að fá álit umsagnaraðila á þessum tillögum.

    Af þessum ástæðum, sem hér hafa verið taldar, getur minni hlutinn ekki borið ábyrgð á þessu máli.``
    Undir nál. skrifa Ingibjörg Pálmadóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jón Kristjánsson og Kristinn Gunnarsson mun skrifa undir þetta álit, hann er fjarverandi vegna ófærðar á Vestfjörðum, en hann hefur komið þeim skilaboðum til mín að hann vilji vera með á þessu áliti þannig að þetta álit verður endurprentað með hans nafni.
    Virðulegur forseti. Ég haf farið yfir nál. og með því eru nokkur fylgiskjöl sem við töldum nauðsynlegt að fylgdu með frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, umsögn Reykjavíkurborgar, kafli úr umsögn ASÍ varðandi málið, umsögn Akraneskaupstaðar, yfirlit yfir skiptingu skatts á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, félmrn., minnisblað úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og bréf ríkisstjórnarinnar.
    Eins og fram kemur í nál. þá er það álit minni hlutans að nauðsynlegt sé að það komi annar skattur í stað aðstöðugjalds. Strax í sumar skilaði nefnd á vegum ríkisstjórnarinnar af sér áliti þar sem hún gerði ráð fyrir því að útsvarsprósenta mundi hækka. En það er ekki fyrr en í byrjun þessa mánaðar eða í lok síðasta mánaðar sem þetta frv. kemur inn til hv. félmn. Það eru auðvitað algjörlega útilokuð vinnubrögð þegar um svo mikilvægan og margslunginn málaflokk er að ræða að frv. skuli vera svona á síðustu stundu. Þessi vinna fór öll fram undir mjög mikilli pressu vegna þess að sveitarfélögin eru nú að ganga frá sinni fjárhagsáætlun fyrir 1994 og hefðu fyrir löngu síðan þurft að vera búin að ákveða sína útsvarsprósentu. Þannig að það er ekki við hv. formann að sakast í þessum málum, hún hefur sýnt einstaka lipurð en það er við hæstv. ríkisstjórn að sakast sem aldrei veit í hvorn fótinn hún á að stíga. Það er eins og kemur fram á allra síðustu dögum --- í gærmorgun kemur tillaga frá þremur hæstv. ráðherrum til nefndarinnar þegar á að fara að afgreiða málið út úr nefnd þess eðlis að þeir fara fram á það að það sé sett lágmarksútsvar. ( KÁ: Hvaða ráðherrar voru það?) Það voru hæstv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, og hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson. Það eru sem sagt þessir þrír ráðherrar sem skrifa svofellt bréf, með leyfi forseta:
    ,,Forsætisráðherra, félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra leggja til við hv. félmn. Alþingis að heimild sveitarfélaga til útsvarsálagningar á tekjustofnalögum verði bundin við 8,4% lágmark. Ríkisstjórnin hefur samþykkt þessa málsmeðferð fyrir sitt leyti.``
    Síðan er sent hjálagt afstaða Sambands ísl. sveitarfélaga sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Óskað hefur verið eftir afstöðu Sambands ísl. sveitarfélaga til þeirrar hugmyndar að í frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem nú liggur fyrir Alþingi verði bætt ákvæði um að útsvar megi ekki vera lægra en 8,4%.
    Í gildandi lögum um tekjustofna sveitarfélaga eru ákvæði um að útsvar megi ekki vera hærra en 7,5% af útsvarsstofni. Hvað útsvarið varðar er í umræddu frumvarpi ekki gert ráð fyrir neinum breytingum öðrum en þeim að þetta tiltekna hámark verði 9,2%.
    Gert er ráð fyrir að löggjafinn ákveði að binda útsvarsálagningu sveitarfélaga við tiltekið hámark. Veigamestu rökin fyrir því að lögbinda lágmarksútsvar eru þau að mismunur á útsvarsálagningu sveitarfélaganna verður minni og útsvarsgreiðslur íbúa landsina verða jafnari.
    Samband íslenskra sveitarfélaga gerir því ekki athugasemd við þá hugmynd að lágmarksútsvar verði lögbundið 8,4%.``
    Það er út af fyrir sig ekkert um það að segja þótt Samband ísl. sveitarfélaga mótmæli þessu ekki en það er rannsóknarefni hvernig stendur á því að hæstv. ríkisstjórn frjálshyggjunnar er að taka þetta umboð af sveitarfélögunum að ákveða sína lágmarksútsvarsprósentu. Það er sú spurning sem hæstv. félmrh. hlýtur að svara hér. Það eru mörg sveitarfélög sem hafa lagt miklu lægra álag á sökum þess að fjárhagsstaða þeirra hefur verið góð og rekstur þeirra sveitarfélaga hefur einnig verið góður og það hefur verið talið óþarfi að hafa útsvarsprósentuna eins og hámarkið er. Það hefur verið talið til þessa óþarfi að stýra sveitarfélögunum á þennan hátt. Nú er allt í einu komin upp þessi tillaga frá hæstv. ríkisstjórn og ég spyr vegna þess að það eina sem getur skýrt þessa tillögu er það að Reykjavíkurborg sér fram á að verða að hækka sína útsvarpsprósentu og er ekki tilbúin að sýna það að vera með hærri útsvarsprósentu en nágrannasveitarfélögin. Þessi grunur hefur vaknað hjá fleiri en mér því það er alveg með ólíkindum að þetta skuli koma svona alveg í blárestina þegar verið er að afgreiða þetta frv. úr hv. félmn. vegna þess að það hefur ekki verið til umræðu fyrr að setja þetta gólf á útsvarsálagningu. Þannig að ég hlýt að spyrja að því hvað liggur þarna að baki.
    Það er ýmislegt sem er vert að benda á varðandi þetta frv. sem hér liggur fyrir. Hér er verið að hækka álögur á einstaklinga. Ég sagði áðan að útsvar hækkar úr 7,5% í 9,2 %. Tekjuskattur lækkar á móti um 1,5% en gæti lækkað um 1,7% ef hæstv. ríkisstjórn ætlaði ekki að næla sér í 400 millj. á millifærslu. Þarna er einn af laumusköttum hæstv. ríkisstjórnar. Það er verið að nota sér þessa skattkerfisbreytingu til að lauma þarna 400 millj. inn til ríkissjóðs frá skattgreiðendum þessa lands. Það er ekki verið að hækka skatta, það er verið að lækka skatta, það er sá áróður sem maður heyrir frá hæstv. ríkisstjórn. En hvað er að gerast? Hvað eru fasteignaskattar að hækka? Þeir eru að hækka úr 1% í 1,12% af almennu atvinnuhúsnæði. Á skrifstofu- og verslunarhúsnæði er verið að leggja 1,25%. Þessi hækkun átti að vera til eins árs en eins og hv. formaður félmn. kom hér inn á áðan þá er búið að strika árið 1994 út, það er sem sé komin brtt. um að festa þennan skatt í sessi. Það er mjög athyglisvert. Það er ekki lengur verið að tala um að

skrifstofu- og verslunarhúsnæðisskattur sé ekki þolanlegur skattur, heldur er verið að tala um að á næsta ári eigi fasteignaskattur á allt atvinnuhúsnæði að vera 1,25%. Það er sú jöfnunaraðgerð sem á að fara fram til að fullnægja öllu réttlæti.
    Hvað þetta þýðir t.d. fyrir verslunarrekstur úti á landi geta menn reiknað út sjálfir. Það er verið að leggja þennan skatt á verslunarhúsnæði sem er ekki of feitur göltur að flá og eins og kemur fram í athugasemdum um fasteignaskatt frá ýmsum sveitarstjórnum þá kvíða þeir fyrir að leggja þennan fasteignaskatt á almennt atvinnuhúsnæði vegna þess að atvinnuhúsnæði í landinu er því miður meira og minna illa nýtt og ónýtt. Því miður er mikið af þessu atvinnuhúsnæði ekki verðmætt í dag.
    Hér er einnig gert ráð fyrir að landsútsvar hverfi en eins og menn muna þá var aðstöðugjaldið fellt niður vegna þess að það átti að lækka bæði þjónustu- og verslunargjöld. Hér er aftur á móti ekki gert ráð fyrir að vöruverð lækki þó landsútsvar hverfi því það er sett vörugjald á olíu eða bensínvörur í staðinn þannig að það mun ekki lækka. Það er því spurning hver sé hugsunin á bak við að landsútsvarið hverfi þar sem það hefur ekki lækkandi áhrif á vöruverð.
    En það er þetta frv. sem hefur þurft miklu meiri umfjöllun í nefndinni eins og ég hef látið koma í ljós heldur en komið hefur fram því þetta er svo viðamikið mál að það er útilokað að ætlast til að það fari á hraðferð í gegnum þingið. En vegna þeirrar miklu pressu sem er frá sveitarfélögunum að afgreiða þetta mál þá höfum við í minni hlutanum ákveðið að bregða ekki fæti fyrir þetta frv. en við gerum miklar athugasemdir við það og það kann að vera að við 3. umr. málsins komum við með brtt. en við erum með brtt. á þskj. 408 varðandi tekjustofna sveitarfélaga og hún er við 6. gr. og orðast svo, með leyfi forseta:
    ,,Við 6. gr. Í stað ,,9,2`` komi: 9.``
    En inn í þetta vantar fyllri skýringar vegna þess að það er ekki ætlast til að sveitarfélögin taki það á sig sem þarna munar um 9,2% og 9%, það er ætlast til að ríkissjóður greiði aftur þann mun sem hann tekur á 1,5% tekjuskatti og 1,7%.
    Við munum draga þessa tillögu til baka til 3. umr. og mun hún koma fyllri fram þar líka vegna þess að þessi skattamál eru í öðrum nefndum, tekjuskattsfrumvarpið, og við viljum sjá hver afdrif þess máls verða.
    Virðulegi forseti. Ég hef ekki hugsað mér að hafa mikið lengra mál um þetta að svo stöddu en ég mun án efa kveðja mér aftur hljóðs um þetta mál, þetta er stórt mál og það eru margar spurningar sem vakna og mín stærsta spurning er til hæstv. félmrh.: Hvernig stendur á því að lágmarksútsvarsprósenta er allt í einu komin inn á borð hv. Alþingis? Hvað er það sem veldur því? Ég vona að ég fái svör við því hér.