Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 13:52:47 (2793)


[13:52]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Þegar frv. sem hér er til umfjöllunar, um breytingar á lagaákvæðum á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna aðildar að samningi um Evrópskt efnahagssvæði, kom inn í þingið í haust þá kom fram í umræðum bæði hæstv. heilbr.- og trmrh. og þeirra sem tóku til máls við 1. umr. að á frv. hefðu verið gerðar veigamiklar breytingar frá því er það lá hér fyrir á síðasta þingi. Stærstu breytingarnar voru þær að út úr frv. hafði verið tekið allt er snýr að brunatryggingum húsa og einnig allt er sneri að Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og bátaábyrgðarfélögunum. Þannig að eftir stóðu aðeins þeir hlutir er snúa að starfsstéttum í heilbrigðisþjónustunni og þannig séð aðeins um að ræða aðlögun íslenskra laga að tilskipunum EB nr. 1408 og 574. Um leið voru einnig gerðar nokkuð veigamiklar breytingar, ekki kannski beint hægt orða það veigamiklar, en leiðréttingar á gildandi lögum, er mönnum fannst vera til bóta og höfðu komið athugasemdir við frá hinum ýmsu starfsstéttum.
    Nú er það svo, virðulegur forseti, að það er ekki mitt að svara fyrir hv. heilbr.- og trn., en af því að ég tók þátt í þeirri umræðu nokkuð rækilega þá ætla ég að víkja að örfáum atriðum er hv. þm. Kristín Einarsdóttir gerði að umræðuefni.
    Um næstu áramót mun samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði verða sá veruleiki sem menn verða að búa við. Ég tek undir það hjá hv. þm. að það er mjög mikill mismunur á t.d. menntun hjúkrunarfræðinga hér á landi og í þeim löndum öðrum, mörgum a.m.k., sem eru á Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta atriði kom einmitt mjög rækilega til umfjöllunar í nefndinni, þar sem ljóst er að íslenskir hjúkrunarfræðingar hafa að baki fjögurra ára háskólanám. Hjúkrunarfræðingar frá mörgum Suður-Evrópulöndunum, t.d. Spáni og Portúgal, eru kannski í mesta lagi með fjögurra ára framhaldsskólanám. Eins eða tveggja ára háskólanám í mesta lagi. Þannig að þarna er mjög mikill munur á. Þetta var sérstaklega rætt við Hjúkrunarfélag Íslands og Félag háskólamenntaðra hjúkrunarfræðinga. Veruleikinn er bara sá að það er ekki hægt samkvæmt samningnum að mismuna þessum stéttum. Staðreyndin er hins vegar sú að við þær stofnanir sem viðkomandi hjúkrunarfræðingar eða læknar yrðu ráðnir inn á verður það alltaf mat þeirra stofnana hversu mikið þeir vilja hafa starfsfólkið menntað ef þeir eru að leita að fólki í vinnu. Það er því auðvitað mikill munur á hvernig þessir hjúkrunarfræðingar eru staddir gagnvart þeim atvinnurekenda þegar sótt er um starf.
    Kröfur er ekki hægt að setja um tungumálakunnáttu, en það hlýtur að verða litið til þess, hvort sem er með hjúkrunarfræðinga eða lækna þegar um ráðningu er að ræða, að menn geti talað það mál er sjúklingarnir á sjúkrahúsunum skilja. Þannig að í öllum tilfellum tel ég að Íslendingurinn standi framar að þessu leyti heldur en sá sem að kemur. Aftur á móti getur skapast vandamál er snýr að læknunum í þessu sambandi. Þeir hafa auðvitað rétt, þó þeir séu ekki ráðnir inn á viðkomandi stofnanir, til að starfa hér á landi t.d. á grundvelli laganna um almannatryggingar og gætu þegið greiðslur úr sjúkratryggingum almannatrygginga fyrir þá þjónustu sem þeir munu veita ef þeir settu upp læknastofur hér á landi. Þannig að það er alveg klárt að það yrði að greiða fyrir þá þjónustu sem slíkir menn mundu veita.
    Þetta eru svona örfá orð um það sem hv. þm. Kristín Einarsdóttir kom hér inn á, en formaður hv. heilbr.- og trn. mun svara nánar fyrir það, enda, eins og ég sagði, er ekki mitt að gera það í þessu sambandi.

    Það er eitt mjög mikilvægt og kannski mesta ágreiningsatriðið sem var hér á síðasta þingi um þetta mál en það voru einmitt brunatryggingarnar. Nú þegar þetta frv. er hér til lokaafgreiðslu og ljóst að búið er að taka brunatryggingarnar út úr frv. þá fyndist mér mjög mikilvægt að hæstv. heilbr.- og trmrh. væri viðstaddur þessa umræðu. Ég mundi vilja óska eftir því, virðulegi forseti, að kannað yrði hvort hæstv. heilbr.- og trmrh. er í húsinu vegna þess að það er alveg óhjákvæmilegt að spyrja hér við þessa umræðu nokkurra spurninga er snúa að brunatryggingum. Það er ljóst, samkvæmt samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði, að Húsatryggingar Reykjavíkur fengu undanþágu frá samningnum og geta haldið sinni einokunaraðstöðu í Reykjavík fyrst um sinn. Þetta var, ef ég man rétt, algjörlega ótímabundin undanþága. Nú er talið að þriðja kynslóð í vátryggingum, tilskipun sem gefin hefur verið út, taki gildi 1. júlí á næsta ári. Það þýðir í raun og veru að á þeim tíma ætti einokunarstaða Húsatrygginga Reykjavíkur að renna út. Því vil ég spyrja hæstv. heilbr.- og trmrh. sem ég veit nú ekki, virðulegur forseti, hvort er í húsinu eða ekki, og við því væri ágætt að fá svör, því ef svo er ekki þá mundi ég kannski stytta mál mitt örlítið nú og koma síðan aftur inn í umræðuna þegar hæstv. ráðherra væri kominn í hús.
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. ráðherra er ekki kominn í hús. Það mun vera ríkisstjórnarfundur. Hvort honum er lokið eða er að ljúka er forseti að láta kanna þannig að það er þá í hendi hv. þm. hvort hann vill nota sér seinni ræðutíma til að spyrja hæstv. ráðherra.)
    Ég ætla þá að gera það og láta þá lokið umræðunni að þessu sinni um húsatryggingarnar eða brunatryggingarnar almennt og koma örlítið inn á þann þátt frv. er snýr að Samábyrgð Íslands á fiskiskipum og bátaábyrgðarfélögunum.
    Eins og ég sagði í byrjun, þegar talað var fyrir málinu í upphafi, við 1. umr., þá var tekið fram að það ætti að fresta ákvæðunum um bátaábyrgðarfélögin og Samábyrgðina. Síðan þegar farið er að nálgast jól þá kemur það upp að alveg er nauðsynlegt að lögfesta þau ákvæði er snúa að bátaabyrgðarfélögunum og Samábyrgð Íslands á fiskiskipum. Í sjálfu sér er ekki mikið um það að segja og hv. form. heilbr.- og trn. gerði rækilega grein fyrir því hér í sinni framsögu áðan og um það mál skapaðist ágæt samstaða í nefndinni, samkomulag um að flytja málið, þó svo að aðdragandi málsins hafi auðvitað alls ekki verið til fyrirmyndar vegna þess að um þetta mál var mjög víðtæk samstaða í upphafi, það var lítið fjallað um málið, menn ætluðu að ganga frá því hér á síðustu dögum fyrir jól af þeirri ástæðum að um þau efnisatriði frv. var sátt strax í byrjun, en svo komu þessi ákvæði inn. Það náðist hins vegar, eins og ég segi, samstaða líka við hagsmunaaðila í þessu sambandi og það var að vissu leyti gott að öðru leyti en því, og mér finnst rétt að það komi hér fram við þessa umræðu, að Landssamband smábátaeigenda óskaði eftir því að hægt væri strax þegar einokunaraðstöðu bátaábyrgðarfélaganna og Samábyrgðarinnar hefði verið aflétt, að þá gætu smábátaeigendur strax valið tryggingafélag, sem í sjálfu sér hefði verið eðlilegur hlutur og skynsamlegt að mörgu leyti að binda ekki þessa einu aðila við það að þurfa að tryggja hjá ákveðnu tryggingafélagi í stað þess að geta valið sér. Það kom hins vegar fram bæði hjá formanni Sambands íslenskra tryggingafélaga og eins framkvæmdastjóra þess að það gæti skapað vissa erfiðleika hjá tryggingafélögunum, bátaábyrgðarfélögunum, ef þessi heimild yrði veitt, af þeirri ástæðu að í flestum tilfellum var búið að gera tryggingasamninga sem giltu í eitt ár. Hefðu menn getað losað sig undan þeim samningum þá hefðu bátaábyrgðarfélögin keypt sér oft á tíðum endurtryggingar og það hefði vafalítið sett þau í mjög erfiða fjárhagslega stöðu. Það var því ekki hægt að verða við þessari ósk frá Landssambandi smábátaeigenda, í þessu tilfelli, þannig að það er í raun og veru sú eina af þeim óskum sem fram komu frá þeim hagsmunaaðilum er mættu til fundar við nefndina, sem ekki var tekið tillit til. Mér finnst rétt að halda því hér til haga við þessa umræðu, en það mun að sjálfsögðu ekki breyta miklu í framkvæmdinni þar sem gert er ráð fyrir því í brtt. að ef um eigendaskipti verður að ræða hjá trillukörlum þá geti þeir í sjálfu sér við eigendaskiptin skipt um tryggingafélag.
    En ég ætla ekki að lengja þessa umræðu nú fyrst hæstv. heilbr.- og trmrh. er upptekinn.
    ( Forseti (SalÞ) : Hæstv. ráðherra er kominn í hús og það er verið að láta hann vita að óskað sé eftir honum.)
    Þá ætla ég að bíða, enda sé ég að hæstv. ráðherra gengur í salinn, og snúa mér þá aftur örlítið að brunatryggingunum.
    Það kom fram í máli hæstv. heilbr.- og trmrh. í upphafi við 1. umr., þegar mælt var fyrir málinu, að þau stóru átakaatriði er voru í frv. frá síðasta þingi hefðu verið sett út úr því. Nú er hins vegar svo komið að það er útilokað að skilja við þetta mál hér í þinginu án þess að fá svör við spurningum eins og þeim hvort það standi til að sú undanþága sem Húsatryggingar Reykjavíkur hafa samkvæmt samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði, þ.e. um einokunaraðstöðu í brunatryggingum húsa í Reykjavík, sem var tímabundin undanþága, en nú þegar þriðja tilskipun Evrópubandalagsins um vátryggingastarfsemi er að koma fram og eftir því sem maður hefur heyrt mun taka gildi 1. júlí á næsta ári, hvort það standi til að Húsatryggingum Reykjavíkur sé áfram veitt undanþága frá samningnum.
    Í öðru lagi að lögin um Brunabótafélag Íslands eru í raun og veru í uppnámi eins og staðan er núna. Það er mikilvægt og nauðsynlegt að gera ýmsar breytingar á lögunum um Brunabótafélag Íslands. Það er nauðsynlegt að skýra nákvæmlega eignarhald á Brunabótafélaginu og því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað líður þeirri vinnu að fram komi hér á Alþingi frv. til laga er taki af öll tvímæli um það hvernig eignarhaldi á Brunabótafélagi Íslands sé háttað, hverjir séu eigendur? Og um leið: Hvernig hefur hæstv. ríkisstjórn hugsað sér að fara með eignarhlut ríkisins í félaginu? Ég býst fastlega við því að þegar eignarhaldið er skoðað þá verði það svo metið að einhver hluti ef ekki nokkuð stór hluti af Brunabótafélaginu sé í eigu ríkisins.