Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 14:18:16 (2801)


[14:18]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Eins og ég sagði var þetta sérstaklega skoðað og mjög mikið rætt í hv. heilbr.- og trn. og það varð niðurstaðan að það leiddi af samningnum að þannig þyrfti þetta að vera. Það væri verið að gera alla þegnana jafnsetta á hinu Evrópska efnahagssvæði. Hins vegar held ég --- ég vona að það sé misskilningur minn í máli hv. þm. þegar hv. þm. sagði að fólki frá öðrum heimsálfum væri bannað að starfa hér á landi. (Gripið fram í.) Það er ekki rétt. Það er hins vegar hægt að gera, af íslenskum stjórnvöldum, kröfur til þeirra um að þeir uppfylli ákveðin skilyrði. Það er alveg hárrétt að þar er verið að mismuna á milli heimsálfa.