Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 14:51:56 (2808)

[14:51]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurnar frá hv. þm. Svavari Gestssyni, sem ég svaraði raunar fyrr á þessum fundi varðandi Brunabótafélag Íslands, þá vænti ég þess að með einum eða öðrum hætti yrði að leysa úr þeim álitamálum sem sannanlega eru þar uppi varðandi eignarhaldið. Ég lýsti því meginviðhorfi sem ég hef til þeirra mála og þarf ekki að endurtaka það. Ég held að ljóst sé að tryggingatakarnir sjálfir, sveitarfélögin og þar með íbúar sveitarfélaganna, séu þar stærstu rétthafar til þess eignarhalds. En það er rétt sem hv. þm. sagði að Brunabótafélag Íslands er að sönnu öflugt og sterkt fyrirtæki fjárhagslega, enda verið býsna vel rekið í gegnum tíðina.
    Varðandi breytingar á lögum um brunatryggingar utan Reykjavíkur, sem var tekið út úr þessu frv. sem hér er til umræðu, þá mun það koma fyrir vorþing, eins og ég gat um áðan. Ég vil hins vegar undirstrika það og upplýsa þannig að því sé haldið til haga að það reynir ekki á þessa þætti, þetta frelsi sem EES-samningurinn hefur í för með sér á vátryggingasviðinu varðandi brunatryggingarnar fyrr en undir áramótin 1994/1995. Það liggur í þeirri staðreynd að frá brunatryggingum hefur verið gengið nú á haustdögum, 15. okt. held ég að dagsetningin sé, og það gildir til sama tíma að ári. Í praxís verður því þetta frelsi, sem innan seilingar er sannarlega með aðild að EES, ekki að veruleika og starfað eftir því fyrr en í aðdraganda ársins 1995. Þessu vildi ég koma á framfæri.