Lagaákvæði á sviði heilbrigðis- og tryggingamála vegna EES

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 14:53:51 (2809)


[14:53]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Mig langar fyrst til þess að þakka fyrir þær ágætu umræður sem hér hafa átt sér stað um þetta mál og verið yfir höfuð mjög málefnalegar eins og vinnan í nefndinni bar vitni um. Hér hafa verið bornar fram nokkrar spurningar og má geta þess að hv. þm. Finnur Ingólfsson svaraði nokkrum spurningum sem fram komu og er ekki ástæða af minni hálfu að bæta miklu við það enda stóð nefndin mjög einhuga í því starfi sem fólst umhverfis þetta mál og þar sem allir lögðu sitt af mörkum.
    Mig langar fyrst að koma að spurningu sem ég hef verið spurður utan þessa ræðustóls og snertir 9. gr. frv. Þar er kveðið á um að 3. mgr. 1. gr. laga nr. 2/1944 falli niður. Ég hef verið beðinn um skýringu á því í hverju sú niðurfelling felst. Þá er til þess að geta að í lögum frá árinu 1944, sem heita lög um ófriðartryggingar, hljóðar 3. mgr. 1. gr. svo orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Trygging sú, er lög þessi fjalla um, nær ekki til þeirra fjármuna í landinu sem eru í eigu erlendra manna eða stofnana nema slíkir aðilar séu heimilisfastir og greiði hér öll almenn gjöld eða ef um umboðssölu á erlendum vörubirgðum hér á landi er að ræða og sá aðili sem selur þær er heimilisfastur og greiðir öll almenn gjöld hér á landi.``
    Það er þetta ákvæði sem verið er að fella úr gildi af því að það stangast á við hin almennu ákvæði EES-samnings um jafnan rétt ríkisborgara svæðisins án tillits til þjóðernis.
    Þá vil ég koma að þeirri spurningu sem borin var fram úr ræðustól og snertir 13. gr. Þar var spurt hvaða rök lægju að baki þeirri nauðsyn að skrá hjá dómsmrh. vátryggingarfélög sem starfa hér á landi.
    Eins og kunnugt er þá er kveðið á um það núna í umferðarlögum að vátryggingafélög skulu viðurkennd af dómsmrn. eða hæstv. dómsmrh. en ekki kveðið á um það að þau skuli vera skráð. Sama regla gildir í öðrum aðildarríkjum á væntanlegu Evrópsku efnahagssvæði. Þar eru vátryggingafélög viðurkennd. Með öðrum orðum ef hér kemur vátryggingafélag af svæðinu og Íslendingar ákveða að gera tryggingasamning við það fyrirtæki þá ber brýna nauðsyn til þess að það tryggingafélag lúti þeirri skyldu að vera skráð hjá opinberu yfirvaldi svo hægt sé að hafa eðlilegt eftirlit og yfirsýn yfir alla tryggingastarfsemina sem fram fer í landinu.
    Þetta eru, tel ég, rökin sem liggja að baki því að nauðsynlegt er að taka upp skráninguna til viðbótar viðurkenningunni sem er í núgildandi lögum.
    Ég vona að þetta svar svari spurningu hv. þm. Kristínar Einarsdóttur er bar þessa spurningu fram.
    Hv. þm. Svavar Gestsson, sem ég sé að er horfinn úr salnum, bar fram nokkrar spurningar sem mig langaði til að koma aðeins inn á. Ég geri ekki kröfu um að hann komi í salinn ef hann er í miklum önnum við þingstörf utan veggja þingsalarins. Mér er vel kunnugt um að um þessar mundir eru hv. þm. önnum kafnir við þingstörf í húsum Alþingis, ekki einvörðungu í Alþingishúsinu heldur í húsnæði þingsins í nágrenninu og hef fullan skilning á því þó hv. þm. hafi brugðið sér frá, en mig langar eigi að síður til að koma í örstuttu máli inn á fáein atriði er tengjast máli hans og tengjast einnig máli hv. þm. Kristínar Einarsdóttur og annarra hv. þm. sem hafa hafa talað. Það er í sambandi við mismun sem hv. þm. höfðu áhyggjur af að ákvæði þessara laga kynni að leiða til, annars vegar gagnvart læknum á Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar kollegum þeirra utan hins Evrópska efnahagssvæðis.
    Hér erum við fyrst og fremst að tala um aðgang að læknaleyfinu. Við erum ekki að tala um aðgang nema að hluta til hvað snertir læknaleyfið að opinberum störfum eða á annan hátt störfum er vinnuveitandi hefur ráð um að velja í. Hér er nokkur munur á og við skulum hafa það aðgreint. Hér erum við fyrst og fremst að tala um þau skilyrði sem verður að uppfylla til þess að einstaklingur sem óskar eftir því að fá læknisleyfi öðlist það. Þá vaknar sú spurning af hverju þarf að gera strangar kröfur um það að einstaklingur sem sækir um læknaleyfi, eða réttara sagt sækir um að fá að nýta læknaleyfið sitt á Íslandi en býr utan hins Evrópska efnahagssvæðis, þurfi að sanna kunnáttu sína í mæltu og rituðu íslensku máli.
    Þetta snertir líka annað mál. Þetta snertir líka almennt afstöðu íslenskra yfirvalda til útlendinga. Um það mætti hafa langt mál. Ég hef oft haft að orði að Íslandi kynni að vera eitt lokaðasta land í heimi gagnvart íbúum þriðja heimsins eða þróunarlandanna, Asíu, Afríku, Suður-Ameríku og kannski þeirra ríkja sem mesta fátæktin er. Það gildir ekki um þetta frv. til laga sérstaklega heldur stefnu yfirvalda almennt í langa tíð gagnvart þessum þjóðum. Þá stöndum við almennt frammi fyrir þessari spurningu: Erum við tilbúin til þess að móta nýja stefnu til þess að opna þessu fólki leið inn í landið, leið til starfa í landinu og ætlum við að bjóða þetta fólk hjartanlega velkomið? Kann að vera að þetta ákvæði sem hér er að finna sé angi af þessari gömlu stefnumótun sem hefur verið við lýði allt fram að þessu?
    Það er ekki auðhlaupið fyrir útlending, ég nefni nú ekki ef hann er svartur, gulur, öðruvísi á litinn en við, að koma til landsins til að dvelja hér þó ekki sé nema um nokkra mánuði að ræða.
    Það má líka nefna aðra hlið á þessu máli og hún er sú að þarna vildum við tryggja að útlendingur, sem kæmi langt að hefði yfir aðstæðum að ráða sem hann yrði að geta beitt til þess m.a. að standast námskeið og próf og aðrar þær kröfur sem settar eru fram af okkar hálfu til þess að hann geti sannað hæfni sína áður en honum er veitt lækningaleyfi. En eins og ég sagði áður þá er þetta langtum stærra mál og angi af stefnumótun íslenskra yfirvalda almennt gagnvart þjóðum heims um það hvernig við viljum umgangast útlendinga í okkar eigin landi. Það er rétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að það ber brýna nauðsyn til að halda vakandi umræðu um það hver eru réttindin og hverjar eru skyldurnar er felast í samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Það er alveg ljóst að þetta er samningur og í öllum samningum felst einhver gagnkvæmni, hvort tveggja réttindi og skyldur.
    Ég vil ekki taka svo djúpt í árinni að þegar við fullnægjum skyldum okkar þá séum við einhver sjálfvirk afgreiðslustofnun en þegar við þiggjum réttindin gerum við það á öðrum grundvelli. Samningur byggist á samvinnu en það er rétt hjá hv. þm. Svavari Gestssyni að við verðum að hafa vakandi vitund og ganga fram af varkárni í hvert sinn sem slík mál eru til umræðu. Ég vona að svör mín við þeim spurningum sem hér hafa verið bornar fram dugi en ég vildi ekki láta hjá líða að koma inn á þessi atriði sem hv. þm. að öðru leyti nefndu í umræðunni. Að öðru leyti vil ég þakka fyrir þær ágætu umræður sem hér hafa orðið og enn og aftur leggja áherslu á að þær vitna um þann góða starfsanda sem ríkti í nefndinni við umfjöllun málsins.