Veiting ríkisborgararéttar

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 15:29:41 (2817)


[15:29]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég þakka hv. 6. þm. Reykv., formanni allshn., fyrir svörin en ég tel þau ekki gild. Ég var ekki að tala um vinnu nefndarinnar. Ég var eingöngu að tala um uppsetningu þskj. Mér finnst auðvitað alveg sjálfsagt og eðlilegt að nefndin vinni það þannig að fjölskyldur séu teknar saman ef um það er að ræða. Nú hef ég aðeins farið yfir þskj. og á einum fimm stöðum er greinilegt að um sömu fjölskylduna er að ræða. Ég nefndi eitt atriði þar sem gat verið um sömu fjölskyldu að ræða sem er á tveim stöðum í þskj.
    Ég vil einnig vekja athygli á nöfnum nr. 74 og 75 þar sem er að því er virðist um bræður að ræða þó það komi auðvitað ekki fram heldur, en það vill þannig til að þeir heita annars vegar Þorvarður og hins vegar Þórður þannig að þeir eru þá saman í þskj. en ef annar hefði heitið Arnór eða eitthvað þess háttar þá hefði annar lent framarlega og hinn aftarlega. Uppsetning þskj. hefur því ekkert að gera með vinnu nefndarinnar. Ég vil því ítreka athugasemd mína. Ég veit að það er mjög auðvelt að raða upp nöfnum í t.d. tölvu. Það þarf ekki að ýta nema á einn takka þá raðar tölvan nákvæmlega eins og manni sýnist. Þar fyrir utan er ég alveg tilbúin til að leggja það á mig að hjálpa hv. þingnefnd að raða þessum nöfnum í stafrófsröð ef það vefst eitthvað fyrir fólki. Ég trúi því ekki að það sé ástæðan. En uppsetning þskj. hefur ekkert að gera með störf nefndarinnar sem ég er viss um að hefur verið með mestum ágætum.