Framleiðsla og sala á búvörum

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 15:56:36 (2822)


[15:56]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það hefur kveðið nokkuð við nýjan tón hjá hv. þm. upp á síðkastið í sambandi við landbúnaðarmálin og má segja að hann sé farinn að taka þann pólinn í hæðina að þar gerist ekki neitt og allt sé í seinagangi. Þó hygg ég að hv. þm. sé það mjög vel kunnugt, sérstaklega vegna þess að hann á mjög tíðförult í höfuðstöðvar bændasamtakanna, að ekki hefur setið á mér að ræða við bændasamtökin um að taka búvörusamningana upp og reyna að finna einhverjar leiðir til þess að flýta fyrir þeirri hagræðingu í búrekstrinum sem nauðsynleg er.
    Á hinn bóginn get ég ekki gengist undir það að ég hafi verið einhver dragbítur á þær úrbætur sem hv. þm. hefur beitt sér fyrir. Mér er satt að segja ekki kunnugt um það t.d., svo ég taki lítið dæmi, hvaða augum hann lítur á stöðu sauðfjárbænda í dag og hvaða skoðun hann hefur á því hvort búvörusamningurinn sem var gerður á sínum tíma hafi verið gerður af mikilli yfirsýn eða framsýni. Mér er heldur ekki kunnugt um það, úr því að hann tekur mjólkurbúin sérstaklega út úr og líka vegna þess að hann heldur því fram að ég standi þar í vegi fyrir hagræðingu, þá væri kannski einfalt að hv. þm. svaraði einfaldri spurningu eins og þessari: Hver heldur hann t.d. að sé staða mjólkurframleiðanda í Eyjafirði gagnvart Kaupfélagi Eyfirðinga ef sú spurning kemur upp hverjir eigi að hafa úrslitaatkvæði um það hvernig eigi að standa að hagræðingu mjólkursamlaganna? Hvaða skoðun hefur hann á því máli? Telur hann að mjólkursamlögin séu eign bænda að meiri hluta til eða kannski alveg? Eða telur hann að mjólkurframleiðendur í Eyjafirði hafi ekkert ráð á mjólkursamlaginu þar þrátt fyrir það hvernig til þess mjólkursamlags var stofnað?
    Það eru spurningar eins og þessar, sem ég skýrði frá þegar búvörusamningarnir um mjólkina lágu fyrir, sem óhjákvæmilegt er að svara áður en lengra er gengið.
    Hv. þm. víkur líka að því að ég skuli ekki hafa gengið frá reglugerð um verðmiðlunarsjóð mjólkur og það er rétt. Það er sérstök framkvæmdanefnd búvörusamninga að störfum og mér er ekki kunnugt um að það hafi setið á mér eða ég hafi lagst undir einhvern feld þegar niðurstaða hefur þaðan komið. Ég hygg á hinn bóginn að það nefndafargan sem hefur verið í landbúnaðinum á undanförnum árum hafi oft orðið bændum til miska og dregið þar úr framförum. Ég get líka sagt það, ef við förum að tala vítt og breitt um landbúnaðarmálin og hv. þm. vill hafa þetta frv. sem sérstakt tilefni þess, að staða bænda í dag, t.d. gagnvart útflutningsversluninni, er ótrúlega léleg miðað við alla þá miklu fjármuni sem ríkisvaldið hefur á undanförnum árum og áratugum lagt fram til þess að efla bændur til sinnar útflutningsverslunar og það fyrirtæki sem bændur treystu sérstaklega til þeirrar starfsemi.
    Nú stöndum við á hinn bóginn frammi fyrir því að verða að erja nýja jörð og það erum við að gera. Um búvörusamningana er þar að auki sérstaklega að segja að þeir voru gerðir til tveggja ára. Gert var ráð fyrir endurskoðun búvörusamninga nú á þessu hausti. Ég hef rætt það við formann sauðfjárbænda og formann Stofnlánadeildar landbúnaðarins að við göngum til þess verks en tel á hinn bóginn nauðsynlegt að draga lærdóm af þeirri reynslu sem af búvörusamningnum hefur komið fram að þessu. Þetta vildi ég segja.
    Hv. þm. spurði mig sérstaklega að því hvað væri að frétta af frv. sem ekki liggur hér fyrir. Um frumvörp um þau efni sem varða sérstaklega samningana um hið Evrópska efnahagssvæði var rætt í ríkisstjórninni á þessum degi en hefur ekki verið lagt fyrir þingflokka. Það er einfaldlega ekki þinghefð fyrir því að taka stjórnarfrumvörp á dagskrá áður en þau hafa verið afgreidd sem slík og ég mun ekki hverfa frá þeirri venju.