Framleiðsla og sala á búvörum

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 16:01:28 (2823)


[16:01]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Sannleikurinn er sá að það væri full ástæða til þess að fara út í ítarlegar umræður um stöðu landbúnaðarins. Það hefur margt verið að gerast í þeim málum og ef við horfum nokkra mánuði aftur í tímann þá höfum við horft upp á aldeilis ótrúlega atburði og mikla togstreitu milli ráðuneyta sem ég tel að sé landbúnaðinum fyrst og fremst til tjóns og hefði auðvitað fyrir löngu átt að vera búið að skera úr um niðurstöðu í þeim málum. En ég ætla ekki að halda langa ræðu heldur koma aðeins inn á nokkur atriði sem varða efni frv. og aðdraganda þess og taka undir það sem aðrir nefndarmenn í hv. landbn. hafa sagt. Það er auðvitað alveg furðulegt þegar mál eins og þetta kemur fram í landbn. örfáum dögum fyrir jól þegar vitað er að málið hefur legið fyrir svo mánuðum skiptir. Það segir í greinargerð, með leyfi forseta:
    ,,Í frv. þessu, sem flutt er að beiðni landbrh. . . .  `` --- Að beiðni landbrh.
    Það vakna auðvitað spurningar í því sambandi hvort það er eðlilegt að nefndir séu að taka að sér að flytja mál eins og þessi og á hvaða leið menn eru þegar ráðherrar biðja nefndir með þessum hætti rétt fyrir jól að koma svona málum að. Það er auðvitað alveg augljóst að þegar þessi leið er farin næst miklu meiri friður um málið og bæði ráðherra og nefndarmenn ætlast til að málið fari í gegn á örskömmum tíma.

En í sjálfu sér hefði verið ástæða til þess að skoða þetta mál nánar og kalla á forsvarsmenn mjólkuriðnaðarins og fulltrúa utan að landsbyggðinni til þess að leggja mat á þá breytingu sem hér á sér stað.
    Engu að síður stend ég að þessu frv. og ég er fylgjandi því og veit að það er mikil þörf á hagræðingu í íslenskum landbúnaði, ekki síður mjólkuriðnaðinum en annars staðar. Það var einmitt sá þáttur sem eftir varð eftir að menn gerðu búvörusamninginn að fara í afurðastöðvarnar, dreifinguna, milliliðina og annað það sem snertir skipulag landbúnaðarins.
    Mér fannst athyglisverð þau orð sem hæstv. landbrh. lét falla um nefndafarganið í landbúnaðinum sem væri bændum til tjóns. Ég held að það sé nokkuð til í þessu og vil benda honum á allt það lagafargan sem landbúnaðurinn er reyrður í og ég held að sé líka landbúnaðinum til tjóns. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að bændur ættu sjálfir að bera mun meiri ábyrgð á sínum rekstri og sínu skipulagi en gert er og ég hygg að margt væri með betri hætti ef ríkisafskipti væru heldur minni en þau eru. Það breytir ekki því að staða landbúnaðar á Íslandi er með þeim hætti að ríkinu ber skylda til þess að styðja við bak hans og að sjá til þess að staða hans batni hægt og sígandi. Ef vilji er til þess að skerða þann ríkisstuðning sem hefur verið veittur til landbúnaðar á það auðvitað að gerast stig af stigi þannig að hann valdi ekki óbætanlegu tjóni og landbúnaðurinn fái tíma til þess að aðlagast breytingum.
    Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess sem fram undan er og við stöndum frammi fyrir því að samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði er ekki slitrur einar, eins og hv. 4. þm. Reykv. hefur oft sagt, hann er að verða að veruleika. Jafnframt virðist GATT-samkomulagið í höfn og eins og við vitum fela báðir þessir samningar í sér mikla ögrun við íslenskan landbúnað og munu kalla á breytingar og aukna samkeppni. Og ég vil ítreka þá spurningu sem kom fram í umræðunum um GATT-samninginn: Hvernig ætla menn að bregðast við? Ég hef ekki séð neinar hugmyndir eða áætlanir um það hvernig eigi að bregðast við þeim breytingum sem fram undan eru, en þær eru verulegar. Þær munu valda breytingum og gera aðstöðu bænda um sumt verri en málið er auðvitað það að snúa vörn í sókn og reyna að nýta alla þá möguleika sem bjóðast en þar þarf auðvitað að standa dyggilega við bak bænda.
    Ég minnist þess að þegar upplýsingar voru að koma fram um heimaslátrun og þann niðurskurð sem væri fram undan hjá sauðfjárbændum vegna samdráttar í sölu sagði aðstoðarmaður hæstv. landbrh. að búvörusamningurinn væri greinilega handónýtur. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. landbrh.: Er meiningin að taka búvörusamninginn upp og fara í rækilega endurskoðun á honum, m.a. í þeim tilgangi að treysta stöðu sauðfjárbænda þannig að þessi samningur grafi hreinlega ekki undan þeim smátt og smátt?
    Varðandi þetta frv. þá vil ég aðeins nefna það að ég var nýlega að lesa greinar um sjóðasukkið í Færeyjum sem tíðkaðist í færeyskum sjávarútvegi, afar athyglisverðar greinar sem birtust í tímaritinu Ægi og ég vil ráðleggja öllum þingmönnum að lesa því það er margt líkt með skyldum. Það tíðkaðist einmitt í færeyskum sjávarútvegi til skamms tíma að þar fengu menn bætur og stuðning úr sjóðum sem voru ekki á nokkurn hátt hvetjandi fyrir veiðar og vinnslu heldur var alveg sama hvað menn gerðu, þeir fengu alltaf sínar bætur og sína styrki. Mér datt þetta í hug þegar ég var að horfa á bakgrunn þessara breytinga. En hér er verið að gera breytingu sem felur það í sér að menn séu fyrst og fremst að styrkja þá sem á stuðningi þurfa að halda og þar sé gætt hagkvæmni í mjólkuriðnaðinum þannig að menn nái fram æskilegri hagræðingu.
    Virðulegi forseti. Ég ítreka að það eru vond vinnubrögð að koma með mál af þessu tagi rétt fyrir jól og maður spyr sig auðvitað hvað menn eru eiginlega að gera í ráðuneytunum. Jafnframt vil ég spyrja hæstv. landbrh.: Er það virkilega meiningin að leggja fram annað frv. til breytinga á búvörulögum í kjölfar þess samkomulags sem okkur er tjáð að hafi náðst milli stjórnarflokkanna? Er það virkilega meiningin að koma með það mál inn á þing örfáum dögum fyrir jól? Ég hef fullan skilning á því að það mál þyrfti að komast í gegn fyrir áramót. Það hefur reynt á það nú þegar gagnvart innflutningi á landbúnaðarvörum. Innflytjendur hafa verið að láta á það reyna hvort innflutningur stæðist vegna EES-samningsins. Landbrn. hefur ásamt sínum lögfræðingum kveðið upp úr að það stæðist ekki og það er augljóst mál hvað svo sem mönnum finnst um EES-samninginn að það verður auðvitað að standa við gerða samninga. En varnir landbúnaðarins verða að vera í lagi eða sú staða sem hann býr við gagnvart erlendri samkeppni.
    Ég ítreka spurningu mína: Ætlar landbrh. að koma með þetta mál hér inn á síðustu dögum þingsins og hvers vegna í ósköpunum eru menn ekki búnir að ganga frá þessu máli fyrir lifandis löngu?