Framleiðsla og sala á búvörum

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 16:12:42 (2825)


[16:12]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er vissulega sammála hæstv. landbrh. um að það þarf að gera úttekt á því hvað GATT-samningurinn felur í sér fyrir íslenskan landbúnað. Það er ljóst að þar hafa breytingar átt sér stað alveg fram á síðustu stund. En það breytir ekki því að það liggur mjög mikið á að gera áætlanir um hvernig eigi að bregðast við. Það má ekki bíða vegna þess að innflutningurinn mun ekki láta á sér standa. Það mun ekki standa á því, það hefur reynslan þegar sýnt okkur, að innflutningur mun hefjast um leið og menn telja hann heimilan. Þess vegna liggur mjög mikið á því að við fáum yfirsýn yfir þetta mál og að það verði undirbúið af hálfu ráðuneytisins og allra þeirra aðila sem að málinu koma hvernig menn hugsa sér að tryggja samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar.