Framleiðsla og sala á búvörum

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 16:14:35 (2827)


[16:14]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Þá gekk hæstv. landbrh. á dyr eftir að hafa varpað til mín syrpu af spurningum í umræðunni áðan þannig að ég fer fram á að tíminn verði ekki settur á mig fyrr en hæstv. ráðherra hefur komið aftur.
    Virðulegur forseti. Ég fór fram á það að tími yrði ekki settur á mig fyrr en hæstv. ráðherra hefði komið í salinn. Hann varpaði fram syrpu af spurningum til mín en gekk svo á dyr um leið og ég steig í ræðustólinn. --- Þá gengur hæstv. ráðherra í salinn.
    Hæstv. ráðherra varð nokkuð hvassyrtur í sinni ræðu áðan. Ég veit ekki af hverju sá stormur var hjá hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra sagði í andsvari áðan að hann hefði talið að þær breytingar sem þyrfti að gera á verðmiðlun væri hægt að gera með reglugerðarbreytingu. En þegar ljóst var að það var ekki hægt hefði ráðherrann beðið formann landbn. að flytja málið í þinginu. Þá hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra: Þurfti allt árið, hæstv. ráðherra? Það er tæpt ár síðan lögin voru samþykkt. Þurfti allt árið til að kanna þetta? Hæstv. ráðherra mótmælti mjög harðlega þeim ásökunum mínum að seinagangi ráðherrans væri um að kenna hvernig komið væri að það yrði að gera upp þetta ár með sömu verðmiðlun og fyrri ár og sagði að sá sem hér stendur hefði haft þennan málflutning uppi að undanförnu og það var að skilja á ráðherranum að ósekju. En, virðulegi forseti, hér höfum við talandi dæmi. Seinagangur hæstv. ráðherra í þessu máli gerir það að verkum að þetta ár, enn eitt ár til viðbótar, verður að gera upp eftir úreltu verðmiðlunarkerfi. Það eru staðreyndir málsins.
    Hæstv. ráðherra spurði hvert væri álit þess sem hér stendur á stöðu sauðfjárræktarinnar. Ég hef aldrei dregið dul á það að sauðfjárræktin mundi eiga afar erfitt uppdráttar eftir þann búvörusamning sem gerður var fyrir bráðum fjórum árum síðan. Ég hef aldrei dregið nokkra dul á það. Ég hef sagt að við yrðum að horfast í augu við þá erfiðleika og bregðast við þeim. Hvað hefur hæstv. ráðherra gert í því máli? Hæstv. ráðherra hefur talað og talað á fundi eftir fundi og lýst því yfir að það yrði að gera breytingar. Það yrði að taka upp búvörusamninginn og það yrði að breyta búvörulögum, en hvað gerist? Hvað höfum við fengið hér fram í Alþingi til að fjalla um hvað þetta snertir? Ekki stafkrók. Þarf frekari vitna við þegar rætt er um að það komi lítið frá landbrn. hvað snertir hagsmuni bænda?
    Hæstv. ráðherra kaus líka að ræða um það að útflutningsbætur hefðu um árabil verið illa nýttar og ekki skilað okkur miklu. Undir þetta skal ég taka af heilu hjarta með hæstv. ráðherra. En, virðulegi forseti, ég vil varpa fram þeirri spurningu: Hvor ber meiri ábyrgð á því, sá sem hér stendur eða hæstv. ráðherra? Hver skyldi oftar hafa staðið að fjárlögum íslenska ríkisins þar sem voru tillögur um útflutningsbætur án þess að þar væru nokkur skilyrði um hvaða árangri það skilaði. Ég mun fara fram á það að hæstv. ráðherra svari mér þessari spurningu.
    Þá fer að koma að því að hæstv. ráðherra reyndi að snúa sig út úr því að hann hefði ekki enn sett reglugerð um úreldingu mjólkursamlaga sem gerir það að verkum að þar er allt í biðstöðu enn þá. Þá kaus hann að fara að ræða um samskipti mjólkurframleiðenda í Eyjafirði og Mjólkursamlag Kaupfélags Eyfirðinga. Nú get ég sagt hæstv. ráðherra það að samskipti bænda í Eyjafirði og Mjólkursamlags KEA eru með miklum ágætum. Hæstv. ráðherra getur fengið það staðfest hjá stjórnarmönnum í Sambandi kúabænda í Eyjafirði sem hafa oftar en einu sinni sagt það svo sá sem hér stendur hefur heyrt að þeir telji að samskipti bænda í Eyjafirði við bæði við mjólkursala og sláturhús Kaupfélags Eyfirðinga sé með miklum ágætum og í mörgum tilfellum ekki síðri ef ekki betri en þar sem um er að ræða hrein samvinnufélög bænda. Kannski kom hæstv. ráðherra hér að kjarna málsins að að baki því að hæstv. ráðherra hefur ekki sett reglugerðina eru ekki fagleg sjónarmið heldur pólitísk sjónarmið. Ástæðan er sú að áragömul andúð hæstv. ráðherra í garð kaupfélaga, blandaðra samvinnufélaga bænda og neytenda gerir það að verkum að hæstv. ráðherra hefur ekki enn treyst sér að setja reglugerð um þetta mál.
    Að lokum, virðulegur forseti, þá er það afar athyglisvert að hæstv. ráðherra gat ekki einu sinni upplýst alþingismenn um það, sem hann þó getur sagt fjölmiðlum, hvað er að gerast varðandi samkomulag um frekari breytingar á búvörulögum.