Framleiðsla og sala á búvörum

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 16:24:28 (2830)


[16:24]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er í fyrsta lagi svo að hv. þm. talar eins og sá samningur sem gerður var við mjólkurframleiðendur hafi verið þeim ókunnugur og er að reyna að gefa í skyn að mjólkurframleiðendur sjálfir verði fyrstu mennirnir sem ekki vilja standa við þann samning. Það er auðvitað algjörlega úr lausu lofti gripið að landbrn. hafi staðið í vegi fyrir hagræðingu í mjólkuriðnaði. Þetta eru ómagaorð, ómerk orð og gjörsamlega óskiljanlegt hvernig má á því standa að þau eru hér viðhöfð. Ég skora á hv. þm., annaðhvort í einrúmi hér eftir fund eða hér í heyranda hljóði að lýsa því yfir og skýra það hvar það sé sem standi á framlögum úr verðmiðlunarsjóði til að hagræðing geti orðið í mjólkuriðnaði.