Framleiðsla og sala á búvörum

62. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 16:26:56 (2832)


[16:26]
     Jón Helgason :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Austurl., formanni landbn., og landbn. fyrir flutning þessa frv. Það er mjög mikilvægt að nefndin geri það þegar málefni sem brýnt er fyrir landbúnaðinn að nái fram að ganga komast ekki inn í þingið á annan hátt.
    Ég vil einnig taka undir það sem hæstv. landbrh. sagði að ég er honum sammála að grundvöllurinn undir búvörusamningnum er brostinn að því leyti að forsendan fyrir gerð hans var sú að þegar sauðfjárbændur yrðu að draga saman bústofn sinn gætu þeir leitað annarra úrræða til að auka tekjur sínar. Hv. 3. þm. Austurl. þekkir það mætavel og átti þátt í að gera úttekt á því að yfirgnæfandi meiri hluti bænda býr ekki svo langt frá þéttbýlisstöðum, þar sem áður var yfirleitt næga atvinnu að fá, að það var vel mögulegt fyrir þá að sækja vinnu þangað. En nú hefur þetta gjörbreyst of víða vegna hins vaxandi atvinnuleysis því miður. Þar með verða þessi úrræði ekki lengur fyrir hendi. En ég vænti þess að þetta frv. megi verða að lögum til þess að hjálpa til í þeirri erfiðu stöðu sem landbúnaðurinn er nú í af margvíslegum ástæðum þó það sé aðeins eitt af mjög mörgu sem þarf að reyna að gera til að bæta þar úr.