Staðan í atvinnumálum á Akureyri og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við henni

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 16:56:21 (2840)


[16:56]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég kveð mér hér hljóðs og beini máli mínu til hæstv. forsrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar til að leggja fyrir hann spurningar og heyra viðhorf hæstv. ríkisstjórnar til ástands atvinnumála á Akureyri og ekki síst stöðu iðnaðarins þar. Akureyri hefur verið, eins og kunnugt er, einn mesti iðnaðarbær landsins. Í iðnaðarhverfinu á Gleráreyrum störfuðu, þegar þar var mest umleikis á árunum upp úr 1980, um 880 manns. Þar eru nú 380 manns við störf eða 500 færri en þegar mest var. Í fyrirtækjunum Slippstöðinni og Odda störfuðu samtals þegar mest var um 400 manns. Þar eru nú við störf 100--130 manns. Þetta er tekið hér til að sýna það sem dæmi um hvernig Akureyri hefur orðið fórnarlamb þess samdráttar í iðnaði og minnkandi markaðshlutdeildar íslensks iðnaðar og/eða hruns í einstökum greinum sem við stöndum frammi fyrir, svo sem í ullariðnaði og skipasmíðaiðnaði. Atvinnuástandið á Akureyri hefur verið að jafnaði eitt hið lakasta í landinu og í reynd varað lengur, þ.e. samfellt atvinnuleysi, en á flestum öðrum stöðum.
    Á Akureyri voru í síðasta mánuði skráðir 9.826 atvinnuleysisdagar. Á skrá í mánuðinum voru 341 karl og 298 konur. Í þessum karlmannahópi voru 101 verkamaður, 16 trésmiðir, 13 járniðnaðarmenn og 33 iðnverkamenn.
    Hæstv. ríkisstjórn hefur þótt aðgerðalítil, svo að ekki sé fastar að orði kveðið, gagnvart þeim vanda sem við er að glíma í atvinnumálum á Íslandi. Þó hafa verið sýndir tilburðir í þá átt að bregðast við gagnvart vanda einstakra svæða og má í því sambandi nefna skipun nefnda um vanda Vestfjarða og einhvers konar áætlun á að heita að sé í gangi gagnvart vanda á Suðurnesjum. Hins vegar virðist ganga mjög erfiðlega að fá hæstv. ríkisstjórn til að taka við sér gagnvart því svæði þar sem atvinnuleysið hefur þó verið hvað mest í landinu og varað hvað lengst, þ.e. á Akureyri. Má í því sambandi nefna framgöngu hæstv. ríkisstjórnar við skiptingu á framlögum til atvinnuskapandi aðgerða, en þar hefur Akureyri iðulega gleymst á sama tíma og aðrir staðir þar sem ekkert atvinnuleysi hefur fyrirfundist hafa fengið miklar fjárveitingar.
    Staða mála er á margan hátt mjög alvarleg á Akureyri um þessar mundir og má í því sambandi benda á stöðu Slippstöðvarinnar og skipasmíðaiðnaðarins og alls þess afleidda iðnaðar og starfsemi sem því máli tengist. Starfsmenn þess fyrirtækis fóru í kröfugöngu fyrir tveimur dögum síðan og sendu bæjaryfirvöldum áskorun, nánast neyðaróp og bæjarstjórn hefur sent Alþingi og ríkisstjórn áskorun um aðgerðir. Ég vil í þessu sambandi og með vísan til þess rökstuðnings sem ég hef flutt spyrja hæstv. forsrh. fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, þar sem málið heyrir undir mörg ráðuneyti, eftirfarandi spurninga:
    1. Hvað hyggst ríkisstjórn Íslands gera gagnvart ástandi atvinnumála á Akureyri sem er hið versta í landinu?
    2. Er ríkisstjórnin sem einn af þremur stórum eigendum í fyrirtækinu Slippstöðin hf. tilbúin til að taka fullan þátt í endurreisn þess fyrirtækis og þá með hlutafjáraukningu ásamt með öðrum eignaraðilum?
    3. Er að vænta almennra aðgerða af hálfu ríkisstjórnar gagnvart vanda skipasmíðaiðnaðarins?
    4. Er ríkisstjórnin tilbúin til að hraða uppbyggingu til að mynda skóla- og samgöngumannvirkja á svæðinu með vísan til hins alvarlega atvinnuástands og láta þess sjást stað þegar í fjárlögum komandi árs?
    5. Er ríkisstjórnin tilbúin til að setja á fót nefnd eða láta vinna sérstaka áætlun um atvinnuvandann á Akureyri með sambærilegum hætti og gert hefur verið eða látið hefur verið í veðri vaka að gert yrði gagnvart til að mynda Vestfjörðum og Suðurnesjum?
    6. Er hæstv. ríkisstjórn ekki skuldbundin til þess að sýna vanda þessa byggðarlags a.m.k. ekki minni athygli en átt hefur við um önnur og er þá ekki farið fram á mikið?