Staðan í atvinnumálum á Akureyri og viðbrögð ríkisstjórnarinnar við henni

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 17:16:07 (2846)


[17:16]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka undir þá ábendingu sem hér kom fram hjá 5. þm. Norðurl. e. að það hefur verið fólksfjölgun á Akureyri síðustu ár umfram landsmeðaltal sem sýnir það að fólk vill setjast að og búa í þessu blómlega héraði. Þar hafa burðarásarnir í atvinnulífinu hins vegar verið, því miður, örfá stórfyrirtæki við hliðina á síðan aftur nánast einstaklingsrekstri. En það er ekki svo að það sé ekkert að. Það hefur verið bent hér á að iðnaður Sambandsins á Akureyri hafi nánast liðið undir lok. Það er alveg rétt, en það er því miður saga íslensks framleiðsluiðnaðar, í það minnsta í vefnaðargreinum eins og þar var uppistaðan.
    Það er einnig rétt að skipasmíðaiðnaðurinn á við mikla erfiðleika að etja og ég vil brýna hæstv. forsrh. að standa við þau orð sem hann sagði hér um að tekin verði upp jöfnunargjöld á þá grein, vegna þess að örlög skipasmíðaiðnaðarins ráðast ekki á næstu mánuðum. Við höfum eingöngu daga eða vikur til stefnu. Og ég hlýt að gera mér vonir um að hagsmunaaðilum í þessari grein og kannski fyrst og fremst starfsmönnum þessarar greinar hafi loksins tekist að koma þessum skilaboðum inn til ríkisstjórnarinnar.
    Ég vil að lokum ítreka það sem hér hefur komið fram, að það eru grundvallarskilyrði sem skipta öllu. Og varðandi vextina sem ríkisstjórnin hefur sagt að hafi lækkað. Þeir hafa fyrst og fremst lækkað til ríkisins, en atvinnulífið býr enn við raunvexti milli 10--15%. En það kom fram á fundi í efh.- og viðskn. í morgun með þjóðhagsstjóra, forstjóra Þjóðhagsstofnunar, að í okkar nágrannalöndum værum menn nú farnir að búa við 2--3% raunvexti sem væri hið eina raunverulega rétta stig í því.