Almannatryggingar

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 17:48:49 (2856)


[17:48]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Ég tek eftir að hæstv. forseti vill hafa formið á hreinu í þessu máli og eins og hér er nefnt úr þingsal, ekki síst þegar vitnað er til fyrrv. þingmanna úr kjördæmi hæstv. forseta, sem gildir auðvitað almennt eins og forseti hefur réttilega bent á.
    Ég ætla ekki að hafa hér langt mál. Þegar greidd voru atkvæði við 2. umr. þessa máls, þá vakti ég athygli á þeirri sérkennilegu stöðu sem uppi væri og sem raunar hafði komið til umræðu þegar málið var rætt við 2. umr., m.a. af hv. 15. þm. Reykv., að 66. gr. þessa frv. er með sérstökum og mjög óvenjulegum hætti og ekki síst þegar litið er til þeirra lögskýringa sem er að finna í athugasemdum með frv.
    Hv. 3. þm. Norðurl. v. hefur rakið skilmerkilega hvað það hefði haft í för með sér ef Alþingi hefði afgreitt málið frá sér með þeim hætti sem stóð í frv. óbreyttu, þó að því hefði mátt hnekkja á grundvelli þess að það bryti gegn stjórnarskránni. Það er auðvitað mikið umhugsunarefni þegar menn eru komnir jafnlangt í umfjöllun máls, eins og hér var um að ræða, að það skuli hafa að geyma ákvæði sem þessi sem felast í upphaflegu frv., 66. gr. þar sem segir, með leyfi forseta: ,,Þá er ráðherra heimilt að birta sem reglugerðir reglur Evrópubandalagsins um almannatryggingar.`` Lögskýringin var á þann veg:
    ,,Greinin er samhljóða 81. gr. laganna að öðru leyti en því að sérstaklega er tekið fram að reglur Evrópubandalagsins um almannatryggingar skuli lögfesta hér á landi í formi reglugerða.``
    Það er, virðulegi forseti, satt að segja með ólíkindum að svona texti skuli vera lagður fyrir Alþingi af hæstv. heilbrrh., slík lokleysa sem þetta er auðsæilega, eins og hér er um hnútana búið, og allt saman gersamlega opið og síðan orðað þannig að það megi lögfesta í formi reglugerða. Og það eru ekki mál sem snúa að þessu hér sem þetta opnar fyrir heldur bara opin óútfyllt ávísun til framkvæmdarvaldsins að leiða í lög, eins og það er hér túlkað, reglur Evrópubandalagsins um almannatryggingar. En hér hefur verið brugðist við eftir að þetta kom til umræðu og við atkvæðagreiðslu og að henni lokinni og ég þakka hv. 3. þm. Norðurl. v. sem og þingnefndinni fyrir að koma með þá breytingu sem liggur fyrir á þskj. 416 og gerbreytir auðvitað stöðunni að því er snertir þetta mál frá þeim ófarnaði sem við blasti ella. Þetta eiga menn að láta sér til varnaðar verða upp á framhaldið. Auðvitað er það staðfest, sem oft hefur verið sagt, út á hvers konar ís við erum að ganga í sambandi við þetta stóra svið sem tengist samningnum um Evrópskt efnahagssvæði. Þó að hér hafi verið ráðin bót á þessu, sem ég mun styðja að gangi fram, þessa brtt., þá stendur hitt auðvitað eftir að regluvaldið, hið upphaflega lagasetningarvald, frumkvæðisvaldið, er í höndum Evrópubandalagsins og mun berast íslenska Stjórnarráðinu í því formi með þeim litlu áhrifum sem samningurinn veitir EFTA-ríkjum og Íslandi til þess að reyna að hafa áhrif á reglusetningu, lagasetningu Evrópubandalagsins áður en frá henni er endanlega gengið. Og það er þessi aðstaða sem ekki er tekið fyrir með þessari breytingu, svo þýðingarmikil sem hún þó er, og setur okkur auðvitað í allt aðra aðstöðu, framkvæmdarvald og Alþingi Íslendinga, heldur en var áður en þessi dæmalausi samningur var lögfestur hérlendis.