Almannatryggingar

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 18:02:55 (2858)


[18:02]
     Kristín Einarsdóttir :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frv. Ég ræddi það nokkuð ítarlega við 2. umr. málsins og benti m.a. á þetta ákvæði þá, en fékk ekki miklar undirtektir við sjálfa umræðuna. Það var ekki fyrr en í atkvæðagreiðslunni sem menn gerðu sér grein fyrir hvað þarna var á ferðinni, þegar beðið var um sérstaka atkvæðagreiðslu um þessa grein.
    Ég verð að lýsa ánægju minni með að það skyldi hafa tekist að breyta þessu ákvæði til betri vegar þó að ég hefði talið eðlilegast að 1. málsl. þessarar 66. gr. væri nægjanlegur í lögum, það þyrfti ekki að taka sérstaklega fram að það væri heimilt að birta reglugerðir Evrópubandalagsins sem reglugerð því ég

teldi að hitt væri nægjanlegt. En þetta tel ég þó vera mikið til bóta.
    Ég vil segja það líka að það sama gildir um mig og síðasta ræðumann að mér var mjög brugðið þegar ég sá þetta. Mér fannst þetta mjög sérkennilegt orðalag sem þarna var tekið upp í þessari grein, en sem betur fer tókst að bjarga þessu fyrir horn og fagna ég því auðvitað. Og það er slæmt í ljósi þess hve margir hafa nú lýst því yfir, bæði hér í þessum þingsal og reyndar utan hans líka, hversu alvarlegt þetta mál var að það skyldi nánast þurfa að beita hörðu til að fá þessu breytt. Mér þótti leiðinlegt og erfitt að það skyldi þurfa að gera.
    Ég vil hins vegar benda á að það hefur að mínu mati gerst hér ýmislegt í lagasetningu sem orkar mjög tvímælis. Vil ég í því sambandi benda á lög nr. 62 frá 18. maí 1993, um breytingar á lagaákvæðum er varða samgöngumál. Það mætti líta á þau lög og athuga hvort ekki væri rétt að breyta þeim einnig í þá veru sem hér er verið að leggja til vegna þess að eins og við reyndar mörg hver lýstum yfir í umræðunni, þá gengur auðvitað ekki að veita þvílíkar heimildir eins og þar er gert. Þó að þær séu örlítið annars eðlis en akkúrat þetta ákvæði eins og það kom frá ráðuneytinu, þá held ég að Alþingi þyrfti að taka upp þau lög og breyta þeim þannig að það orki ekki tvímælis að þau standist stjórnarskrá.
    En ég vil endurtaka það að ég mun styðja þessa brtt. því að mér þykir hún vera mikið til bóta þó að ég telji að það hafi verið óþarfi að hafa þennan síðari málsl. inni í 66. gr. eins og ég hef lýst áður.