Almannatryggingar

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 18:05:48 (2859)

[18:05]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil eins og þeir sem hafa talað hér á undan mér fagna því að það náðist samkomulag um að gera breytingar á þessari grein. Ég ætla svo sem ekki að lengja þessa umræðu mikið en vil þó minna á það að um þessa hluti fóru einmitt fram langar umræður í tengslum við umfjöllun um samninginn um EES og fylgifrumvörpin með honum í fyrra. Það var togast mikið á um þessa hluti í nefndum og ekki síst í samgn. og það er rétt að það orkar mjög tvímælis hvernig þeir hlutir þar enduðu.
    Ég kem hér upp kannski ekki síst til þess að vekja athygli á því að í brtt. frá meiri hluta samgn. við frv. til hafnalaga er brtt. sem er svona orðuð. Með leyfi forseta, þá ætla ég að lesa hana:
    ,,Ráðherra skal setja reglugerð um framkvæmd laga þessara.
    Samgönguráðherra er heimilt að setja reglugerðir á sviði hafnamála að því leyti sem það er nauðsynlegt vegna skuldbindinga er leiðir af samningi um Evrópskt efnahagssvæði, sbr. lög nr. 2 13. janúar 1993, um Evrópska efnahagssvæðið, með síðari breytingum.``
    Ég skil hljóðan þessara orða þannig að í raun sé ekki hægt að misskilja það, ef Alþingi samþykkir þessa klausu, að það sé verið að gefa ráðherranum heimild til að setja reglugerðir um einhverjar breytingar sem koma síðar á þessum reglugerðum frá Evrópubandalaginu. Ég tel að það sé ástæða til að forma þessa grein með eitthvað svipuðum hætti og hér var lýst áðan og legg til að það verði skoðað vandlega af meiri hlutanum hvort hann muni nú ekki fallast á að breyta líka þessari tillögu sinni í átt við það sem hér hefur verið gert. Ég er tilbúinn að mæta á fundi nefndarinnar til þess að fara yfir það með hv. formanni samgn. ef hann vill beita sér fyrir þessari breytingu.