Almannatryggingar

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 18:08:50 (2860)


[18:08]
     Björn Bjarnason :
    Herra forseti. Ég fagna þeim umræðum sem hér hafa farið fram um þetta mikilvæga mál. Það er rétt hjá hv. 9. þm. Reykv. að þetta var rætt mjög ítarlega í tveimur þingnefndum sem ég sat í í fyrra, annars vegar utanrmn. og hins vegar menntmn. Ég beitti mér fyrir því í utanrmn. að 4. gr. laganna í frv. um staðfestingu á EES-samningnum yrði felld úr frv. einmitt til þess að þrengja valdsvið ríkisstjórnarinnar til þess að gefa út reglugerðir á grundvelli EES-samningsins. Einnig stóðum við saman að því í hv. menntmn., ég og hv. 9. þm. Reykv., að breyta frv. til laga varðandi starfsréttindi til þess einmitt að það væri alveg skýrt í þeim lögum hvaða heimildir væri verið að veita ráðherra til þess að gefa út reglugerðir á grundvelli tilskipana eða gerða á hinu Evrópska efnahagssvæði. Og ég er þakklátur hv. 15. þm. Reykv. fyrir að vekja máls á þessu atriði í gær og taka þetta upp með þeim hætti sem gert var og að nefndin skyldi koma saman og breyta þessu eins og gert hefur verið. Að vísu má segja að það sé engin ein formúla sem menn hafa við þann texta þegar slík atvik koma upp og í þessu tilviki hefði að sjálfsögðu verið unnt að fara aðra leið heldur en hv. nefnd gerir tillögu um og í sjálfu sér hefði ég talið nóg að tilgreina þær tvær tilskipanir eða gerðir sem tilgreindar eru í grg. með frv. til þess að taka af öll tvímæli. En ég sætti mig við þá leið sem þarna er farin og það er alveg ljóst að Alþingi mun koma að öllum þeim tilskipunum, gerðum og reglum sem á eftir að samþykkja eða eiga eftir að ná til hins Evrópska efnahagssvæðis.
    Innan utanrmn. og til formanna þingflokka og fulltrúa Íslands í EFTA-þingmannanefndinni hefur nú verið dreift greinargerð varðandi málsmeðferð og hugmyndir um málsmeðferð á EES-málefnum hér á hinu háa Alþingi og ég tel að ef rétt er að þeim málum staðið þá geti þingið haft fullt eftirlit með því að

ekki komi til að lagagreinar eða frumvarpsgreinar séu jafnopnar og í þessu tilviki og hér hefur verið um rætt. Það er ákaflega mikilvægt þegar af stað er farið í þessu mikla máli að allir aðilar íslenska stjórnkerfisins komi að málinu með réttum hætti og Alþingi getur best tryggt það með því að hafa heimildir til útgáfu á reglugerðum eins takmarkaðar og kostur er miðað við það að efnisleg ákvæði nái fram að ganga og Íslendingar standi við þær skuldbindingar sem þeir gangast undir með aðild sinni að Evrópska efnahagssvæðinu. Það hefur verið bent á það í þingnefndum oftar en einu sinni að í þessu efni séu lagaákvæði í Danmörku e.t.v. heppileg fyrirmynd. Ég hef andmælt þeim skoðunum. Ég tel að danskur réttur hafi þróast á þann veg í evrópsku samstarfi að hann sé ekki til fyrirmyndar fyrir okkur Íslendinga og það sé augljóst að í dönskum lögum séu allt of víðtækar heimildir til útgáfu á evrópskum reglugerðum miðað við okkar hefðir og okkar reglur. Ég tel því að þessar umræður hér og þau tök sem hv. heilbr.- og trn. tók á þessu máli ættu að vera skilaboð bæði til heilbr.- og trn. og annarra ráðuneyta um það að á Alþingi vilji menn að öll slík ákvæði í frumvörpum séu markvisst orðuð og greinilega og ekki sé verið að veita of opnar heimildir. Ég taldi raunar að á síðasta þingi hefðu þessi skilaboð átt að liggja ljós fyrir, m.a. með niðurfellingu á 4. gr. úr frv. um staðfestingu Evrópska efnahagssamningsins og fleiri úrræðum sem við þingmenn gripum til til þess að sýna okkar vilja í þessu efni. Ég hlýt að líta þannig á að þeir lögfræðingar sem starfa á vegum ráðuneytanna og koma að þessu máli hljóti að taka tillit til þess sem hér hefur gerst og hagi sínum störfum í samræmi við það í frekari tillögugerð um þessi málefni.