Afgreiðsla mála á dagskrá

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 18:17:09 (2863)


[18:17]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur vakið nokkra undrun mína að 13. liður á dagskránni er ekki tekinn fyrir þó að það hafi verið veitt afbrigði til þess að taka hann fyrir, en nú hafa verið tekin fyrir öll þau önnur atriði sem leyfð voru afbrigði fyrir. Forseti ætlaði hins vegar að fara að taka fyrir eitt af þessum almennu málum hér á dagskránni. Ég veit að allir hér inni vita að málið sem er í 13. lið, starfsleyfi fyrir THORP-endurvinnslustöðina, tillaga frá umhvn., er mikið alvörumál. Það er slíkt alvörumál að starfandi utanrrh. hefur kvatt sendiherra Breta á sinn fund í dag til þess að mótmæla þessari ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar. Ástæðan fyrir því að umhvn. öll kaus í morgun að flytja þessa tillögu hingað inn var viðleitni okkar til þess að Alþingi mundi þá strax láta álit sitt skýrt í ljós. Þess vegna vil ég mælast til þess við hæstv. forseta að 13. mál verði tekið fyrir vegna þess að tilgangurinn með því að flytja það í dag og óska eftir afbrigðunum hér fyrr á fundinum var einmitt sá að Alþingi gæti samdægurs látið í ljós afstöðu sína í þessu máli.