Prestssetur

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 21:42:18 (2870)


[21:42]
     Kristín Einarsdóttir (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Eins og þingmönnum er kunnugt er 13. mál á dagskrá þessa fundar viðbrögð vegna starfsleyfis fyrir THORP-endurvinnslustöðina í Sellafield. Þetta mál er mjög brýnt að mínu mati, eins og reyndar flest þau mál sem eru á dagskrá, ég er ekki að draga úr því hve brýn þau eru, en einmitt þetta mál er þess eðlis að það liggur á að Alþingi samþykki þessa ályktunartillögu í dag. Þetta varðar mál sem er brennandi í dag, ekki síst í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur tekið ákveðin skref í þessu máli, sem þáltill. fjallar um, og ákveðið að kalla breska sendiherrann á sinn fund á morgun. Ég hefði því talið eðlilegt að þessi ályktun Alþingis, ef samþykkt yrði, yrði afhent breska sendiherranum við sama tækifæri og mótmæli ríkisstjórnarinnar. Ef þetta mál kemst ekki á dagskrá hér í dag og afgreitt frá Alþingi með sama hætti og ýmis önnur mál sem hér er verið að afgreiða á skömmum tíma og hefur verið gert iðulega hér með aðstoð okkar stjórnarandstæðinga, þá er að mínu mati nánast allt bit farið úr þessu máli. Þess vegna vildi ég spyrja hæstv. forseta hvernig ætlunin er að haga fundi hér áfram að því er varðar dagskrána, hvort það er einhver von til þess að þetta mál komist á dagskrá og hugsanlega þá afgreitt sem ályktun Alþingis í kvöld í ljósi þess að þarna er um að ræða samkomulagsmál þar sem öll ríkisstjórnin virðist vera sammála, öll umhvn. flytur þetta samhljóða þannig að það ætti ekki að vera vandkvæðum bundið að afgreiða þetta mál frá Alþingi.