Prestssetur

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 21:45:16 (2872)


[21:45]
     Ólafur Ragnar Grímsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Umhvn. taldi það mjög brýnt snemma í morgun að vilji Alþingis í þessu máli lægi fyrir strax. Þess vegna afgreiddi umhvn. samhljóða og einróma þessa tillögu og það var kynnt í upphafi fundar í dag kl. 10.30 í morgun af hálfu formanns umhvn. að þessi tillaga lægi fyrir. Síðan var það samþykkt með afbrigðum að taka hana á dagskrá. Það vakti furðu okkar að dagurinn leið allur fram að kvöldmatarhléi án þess að málið væri tekið fyrir. Það þjónar hagsmunum Íslands að vilji Alþingis í þessu máli liggi fyrir eins fljótt og hægt er, virðulegi forseti. Og þegar við spurðumst fyrir um það hér fyrir kvöldmatarhlé hverju það sætti að málið væri ekki tekið fyrir þá strax, þá fengum við á því tilteknar útskýringar sem tengdust aðstöðu eins ákveðins þingmanns og er sjálfsagt að taka tillit til þess, en nú er forseti farinn að skilyrða þetta með þeim hætti að þetta mál verði þá fyrst tekið fyrir þegar umræðu um annað mál verður lokið þannig að það er verið að setja þá þingmenn, sem vilja hugsanlega tala í því máli, sem ég hef ekki hugmynd um hvort eru einhverjir eða enginn, í þá stöðu að þeir verða að fara að taka tillit til þess hvort þetta mál kemst á dagskrá. Mér finnst það draga úr því að þetta sé brýnt hagsmunamál íslensku þjóðarinnar hvað það dregst að það sé tekið hér fyrir. Þetta mál ógnar lífshagsmunum íslensku þjóðarinnar. Breski sendiherrann verður kallaður fyrir sérstaklega í fyrramálið og mér er gersamlega óskiljanlegt hvers vegna forseti þingsins dregur það, dregur í allan dag og ætlar greinilega að draga það fram eftir kvöldi, jafnvel fram á nótt að taka þetta mál fyrir.