Prestssetur

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 21:49:13 (2875)


[21:49]
     Hjörleifur Guttormsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Ég vil biðja virðulegan forseta um að endurskoða það hvernig hér er haldið á málum varðandi stjórn fundarins. Það liggur fyrir að sá forseti sem sat hér í stól á sjöunda tímanum hét því að þetta mál yrði tekið á dagskrá sem fyrsta atriði eftir kvöldmatarhlé. Það hefur þegar komið fram og það er með öllu óskiljanlegt ef ekki er hægt að treysta því sem þannig er sagt og það varðandi mál sem ætti ekki að þurfa að standa í ágreiningi um að fái afgreiðslu í þinginu. Ef hæstv. forseti heldur að þetta greiði eitthvað fyrir þingstörfum, að ætla að leggjast í hlutina með þessum hætti, þá er það mikill misskilningur. Og ég bið virðulegan forseta um að endurskoða ásetning sinn um að halda þessari umræðu áfram og draga það enn frekar að taka þetta mál á dagskrá. Það verður litið á það sem viðleitni af hálfu forseta ef svo heldur fram til þess að koma í veg fyrir að þetta mál fái hér eðlilega afgreiðslu.