Starfsleyfi fyrir THORP-endurvinnslustöðina

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 23:00:24 (2888)


[23:00]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að það er nauðsynlegt að efla samstöðu með sem flestum aðilum sem hafa lagst gegn þessum illvígu áformum bresku ríkisstjórnarinnar en tíminn er skammur. Til hvaða leiða er þá hægt að grípa?
    Við förum á eftir á fund hv. utanrmn. Ég held að t.d. væri þarft að reifa þar hvaða möguleikar eru á að grípa til skjótra viðbragða. Hins vegar hefur íslenska ríkisstjórnin haft frumkvæði. Þessi ríkisstjórn hefur haft frumkvæði að því að sameina Noðurlandaþjóðirnar í andstöðu gegn þessu. Þannig var það t.d. íslenska umhverfisráðuneytið sem fékk samsvarandi ráðuneyti á Norðurlöndum til að mótmæla þessu sameiginlega fyrr í sumar. Við höfum nú í dag haft frumkvæði að því að reyna að efna til samstöðu með þessum ráðherrum aftur. Við munum reyna að útvíkka þá samstöðu. En eins og ég sagði áðan varðandi gerðardómsákvæði 32. gr. tel ég að hún hafi ekki gildi. Það er sjálfsagt að skoða það eins og hægt er, en ég tel að alveg klárt sé að eins og þessi samningur er uppbyggður séu þau ríki sem greiða atkvæði gegn samþykktum eins og þeirri sem við áttum aðild að í sumar og áttum frumkvæði að 1987 undanskilin samþykktum.
    Ég er sammála hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni að hvað eina sem gert er til að hnekkja þessari ákvörðun, jafnvel þó að það dugi ekki til, veikir stöðu Breta í þessu máli. Og í Bretlandi er umhverfisráðherra sem fer vítt um álfur og talar fjálglega um umhverfismál, gerði það t.d. á ráðstefnu þar sem ég var í New York, þar sem hann enn og aftur tók á hvalveiðimálunum. Það er auðvitað nauðsynlegt, ekki síst vegna þess hversu harkalega Bretar hafa tekið undir með meginmarkmiðum Parísarsamningsins ekki síst í sumar, að sýna fram á það að trúverðugleiki þeirra er enginn í þessum málum ef þetta er niðurstaðan. Og nákvæmlega þessi orð að trúverðugleiki þeirra sé mjög að fótum fallinn ef þetta er niðurstaðan var það viðhorf sem íslenska ríkisstjórnin lét í ljósi bréflega við breska umhverfisráðherrann fyrr í sumar.