Prestssetur

63. fundur
Fimmtudaginn 16. desember 1993, kl. 23:10:34 (2891)

[23:10]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég mun ekki hafa ýkja langt mál að þessu sinni um þetta mál, en það eru ákveðin atriði sem er óhjákvæmilegt að koma á framfæri og bið ég nú hæstv. forseta að tryggja hér kyrrð ef hún verður ekki komin á innan skamms.
    Ég flyt ásamt hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni brtt. við þrjár greinar frv. og hefur hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson þegar gert allítarlega grein fyrir þeim og ég hef aðeins örfáum orðum við það að bæta. Áður en ég vík að því vil ég gagnrýna það harðlega hversu stuttur tími gafst til þess að fjalla um þetta stóra mál sem fram hefur komið hér að hefur tekið 9 ár að undirbúa og sér þó ekki fyrir endann á því. Það er nánast óþolandi að vera stillt upp við vegg með tengingum við fjárlagaafgreiðslu sem ætti að vera gersamlega óþörf og hafa ekki möguleika til þess að fjalla um þetta viðamikla mál og að mörgu leyti mjög svo merka mál. Ég hef verið að velta því fyrir mér hvort hér sé um að kenna röðun á dagskrá þingsins eða hvort þarna sé einfaldlega um að ræða að mál sumra ráðherra hafi meiri forgang en annarra. Einnig hef ég rætt það hvort allshn. þurfi virkilega að vera á varðbergi alla tíð til þess að fá að vita það hvaða mál eru væntanleg inn í nefndina til þess að hún hafi hreinlega svigrúm til þess að kalla mál inn í nefnd ef rekið verður harkalega á eftir þeim eins og var í þessu tilviki.
    Þrátt fyrir stutta umræðu var hún afskaplega fróðlega að mínu mati og mér þykir mikill skaði að vinna við þær óþolandi aðstæður að geta ekki rætt að nokkru gagni mál sem hefði verðskuldað ítarlega, góða og vandaða málsmeðferð.
    Varðandi málið sjálft er það alltaf álitamál hvort Alþingi á að vera að taka við málum lon og don sem orðið hefur samkomulag um úti í bæ jafnvel þótt göfug stofnun eins og kirkjuþing hafi komið nálægt málinu eða eins í öðru máli, sem hefur verið og verður hér á næstunni til umræðu, þar sem önnur valdamikil stofnun, ASÍ, hefur komið að málinu. Ég held að við hljótum fara að spyrja okkur ákveðinna grundvallarspurninga um það hvar og hvernig mál eru undirbúin.
    Varðandi brtt. vil ég einungis halda því til haga hér að það er ákveðið réttlætismál --- sem ekki var á þessum skamma tímafresti hægt að glíma við sem skyldi --- hvort trúfélög hér á landi sitji við sama borð. Vissulega hefur það verið rætt og með nokkrum rökum að á þjóðkirkjunni hvíli ákveðnar skyldur sem ekki hvíli á öðrum trúfélögum, m.a. að henni sé það skylt að halda starfsemi um allt land. En ég held að það verði fyrr en síðar að taka mjög mikla grundvallarumræðu í þessum efnum og ég held að spor í áttina að því að viðurkenna þetta sé þriðja brtt. frá okkur hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni þar sem þó er ekki gengið lengra en svo að ætla að sveitarfélögum sé ekki skylt að leggja til ókeypis lóðir fyrir prestssetur, því sé haldið opnu hvort svo verði eður ei.
    Það er ekki afskaplega margt fleira sem ég ætlaði að taka til umræðu og ég held að ég stytti ræðu mína af fleiri en einni ástæðu vegna þess að ég á nú þegar að vera komin á fund hjá hv. utanrmn. og mér þykir miður að missa af upphafi þess fundar. Ég hafði heldur ekki hugsað mér að tala hér lengur í þessu máli en ég held því þó að sjálfsögðu opnu ef umræður gefa tilefni til að taka hér til máls aftur í þessu máli, annaðhvort í síðari ræðutíma í þessari umræðu eða við 3. umr.