Prestssetur

63. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 01:15:39 (2903)


[01:15]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil minna hæstv. forseta á að ég hef ítrekað óskað eftir því að hæstv. fjmrh. verði kvaddur til umræðunnar til að svara fyrirspurnum sem ég hef beint til hans. Ég kann því illa, virðulegur forseti, að því sé ekki sinnt og að forseti gefi því ekki gaum þegar ég bið hér um orðið um fundarstjórn einmitt til að ítreka það og inna eftir því hvort hæstv. fjmrh. sé fáanlegur til umræðunnar. Því hér er um að ræða ágreiningsmál á milli hæstv. dómsmrh. og hæstv. fjmrh. um meðferð á eigum ríkissjóðs. Það er ekki forsvaranlegt að umræðu ljúki án þess að hæstv. fjmrh. komi og svari fyrirspurnum um þetta atriði. En það kemur fram í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. að þessar eignir séu eign ríkissjóðs. Hæstv. dómsmrh. er ósammála því. Hvað eru hv. alþm. að gera þegar þeir greiða atkvæði um þessa 4. gr. og frv.? Eru þeir að greiða atkvæði sjónarmiði dómsmrh. eða fjmrh.? ( Landbrh.: Þeir eru að taka af skarið.) Þeir eru að taka af skarið, segir hæstv. landbrh. Það væri nú fróðlegt að fá nánari útlistun á þessu hvaða skar er verið að taka af í þessum efnum. Það er almenna reglan að eignir ríkissjóðs verði ekki seldar nema samkvæmt sérstökum lögum. Eða ætlar hæstv. dómsmrh. að halda því fram að hann gæti farið að selja t.d. embættisbústaði sýslumanna eða húseignir ríkissjóðs sem hýsa embætti sýslumanna út frá einhverju ákvæði í lögum af þessu tagi? Eða jafnvel án þess að það væri ekki neitt ákvæði af þessu tagi? Hvaða eignir eru það sem á að selja hér samkvæmt þessari grein í frv.? Þær eru ekki taldar upp. Og hvaða réttindi eru það sem þeim fylgja sem má selja?
    Hæstv. dómsmrh. sagði hér fyrr í umræðunni að þeir sem færu með þessi mál, stjórn prestsseturssjóðs, og hefðu heimild samkvæmt þessu frv. til að kaupa og selja prestssetur, þeir væru á vegum kirkjunnar, sá sjóður væri ekki eign ríkisins, ríkið bæri ekki ábyrgð á þeim sjóði. ( Gripið fram í: Ha? Sagði hann það?) Já, það kom alveg skýrt fram að kirkjan bæri ábyrgð á þeim sjóði. Með öðrum orðum að þeir sem ekki eru undir stjórn ríkisins þeir geta selt eignir sem fram til þessa hafa verið eign ríkisins og ráðstafað þeim til annarra en ríkisins sjálfs. Þeir geta gengið á eignir sjóðsins með því að reka sjóðinn með halla. Það eru engin ákvæði í frv. sem skylda sjóðstjórnina til þess að láta tekjur mæta útgjöldum. Sjóðstjórnin getur vísvitandi rekið þennan sjóð með halla. Sjóðstjórnin getur haldið áfram að leigja ýmsa bústaði á eina krónu á mánuði. ( GunnS: Hættu að tala svona.) Hér segir hv. 5. þm. Austurl. mér að hætta að tala um húsaleigu klerka. Hver skyldi húsaleigan vera á Heydölum? Ég vil bara minna hv. þm. á að það eru fleiri í þjóðfélaginu en klerkar sem kvarta undan sínum kjörum. Ég get upplýst þann ágæta þingmann um það að til mín leitaði kona í dag, einstæð móðir, hér í borginni sem er atvinnulaus og hún borgar 45.000 kr. á mánuði í húsaleigu. Hún hafði engin úrræði og hefur engin úrræði til að sjá sér og sínum farborða. Henni bjóðast ekki krónukjör á mánuði í þessari stöðu. Það er enginn tilbúinn til að liðsinna henni hér af þeim sem hún hefur leitað til. Það dugar lítið að segja við fólk eins og hana að menn eigi að hætta að tala um þessi kjör. Ég vænti þess að hv. þm. geri sér grein fyrir því að það er alvörumál sem um er að ræða. Það er ekki flimtingamál að vera með sérkjör og telja það eðlilegan hlut að viðhalda þeim. Þó að hv. 5. þm. Austurl. glotti yfir þessum ræðum þá er ég ekki viss um að hann brosi svo mikið þegar hann er kominn austur á firði og þarf að svara sínum kjósendum um afstöðu sína í þessu máli. Menn eiga ekki, síst af öllu jafnaðarmenn, að taka kerfi og framlengja það og setja sérstök lög til að geta framlengt það . . .  ( Gripið fram í: Nema kvótakerfið.) Nema kvótakerfið? Ef til vill. Nú sé ég að hæstv. umhvrh. er mættur og brosir breitt.
    ( Forseti (PJ) : Ekki samtal.)
    Mér er ekkert að vanbúnaði, virðulegur forseti, að ræða þessi mál en ég kann því betur að þingmenn sem hér eru viðstaddir hafi hugann við það að taka þátt í umræðum og hlýða á umræður í því máli sem til umræðu er í stað þess að hafa það í flimtingum. Mér finnst það satt best að segja ekki mjög tilhlýðilegt.
    En ég vil ítreka það, virðulegur forseti, og vænti þess að forseti taki því vel eins og jafnan þegar óskað er viðveru ráðherra að ég hef óskað eftir því að hæstv. fjmrh. komi til fundar og svari spurningum um þetta grundvallaratriði. Það verður að liggja ljóst fyrir, virðulegur forseti, hvor skilningurinn á að gilda í þessum efnum. Því ef menn eru að taka stefnubreytingu hvað þetta varðar þá gildir það sama um önnur atriði. Það er ekki hægt að setja lög um að ákveðnar eignir ríkisins verði afhentar tilteknum sjóði sem geti síðan selt þær eða keypt eftir atvikum en aðrar eignir ríkissjóðs fari eftir öðrum reglum, sem sé þeim að það verður að samþykkja með lögum hverju sinni. Það er ekki boðlegur framgangsmáti málsins eins og ég greindi frá í upphafi fyrri ræðu minnar í kvöld að blanda saman tveimur óskyldum atriðum. Annars vegar stefnubreytingu í þessum málefnum og hins vegar því sem tengist fjárlagaafgreiðslu. Og ég hef lagt áherslu á að menn greindu þessi mál í sundur, tækju það mál sem lýtur að afgreiðslu fjárlaga út úr frumvörpunum og afgreiddu þau sér þannig að forsendur fjárlagafrv. mættu halda en skildu eftir til frekari skoðunar þessa miklu stefnubreytingu sem hér er boðuð í þessum málum og kirkjunnar menn hafa haft á sínum vettvangi til umfjöllunar í nokkuð langan tíma en þingmenn ekki. Það er það sem þarf að gerast, virðulegur forseti, að þingið manni sig upp í að gefa sér þann tíma sem þarf til að geta afgreitt frá sér sómasamlega frv. en látið það vera að haga sér eins og gólftuskur fyrir ráðherra, þræla hér í gegn illa unnum frv. eins og bent hefur verið á og má nefna það fræga ákvæði til bráðabirgða í frv. til laga um kirkjumálasjóð. En það er hollt að lesa það yfir þingmönnum sem hér sitja prúðir og stilltir að í ákvæði til bráðabirgða, sem eðli máls er ákvæði sem gildir um skamma hríð, er ákvæði um að afhenda eignir ríkissjóðs tilteknum sjóði. Það er ekkert til bráðabirgða það er til varanlegrar afhendingar. Hvað á það heima í ákvæði til bráðabirgða? Eins og hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Húseignin að Bergstaðastræti 75, Reykjavík, ásamt leigulóðarréttindum verður eign kirkjumálasjóðs við gildistöku laga þessara.``
    Þetta er í ákvæði til bráðabirgða. ( SvG: Þetta er kannski bráðabirgðaákvæði gegn . . .  ) Ja, þá væri fróðlegt að fá það upplýst hvenær þessu ákvæði til bráðabirgða lýkur, hvenær það fellur úr gildi. Því það er eðli bráðabirgðaákvæða að þau falla úr gildi að skömmum tíma liðnum.
    Það segir einnig í ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:
    ,,Eignir þær, sem ríkið hefur lagt Tónskóla þjóðkirkjunnar til, renna til skólans við gildistöku laga þessara.``
    Það er ekki hægt og ekki boðlegt bara út frá tæknilegum sjónarhóli séð að afgreiða frv. eins og þetta óbreytt. Auðvitað eiga menn að gefa sér tíma til að laga hortitti í lagasetningu af þessu tagi. A.m.k. hef ég lagt á það áherslu að menn gæfu sér tíma til að pússa svona hluti svo að sómasamlegir væru fyrir utan það að skoða hinn efnislega þátt málsins betur en gefist hefur. Það kann að vera að niðurstaða við athugun á máli eins og þessu verði sú að menn fallist á meginsjónarmiðið sem hér er verið að boða en það gerist ekki með þeim hætti að koma í veg fyrir að þingmenn gefi sér tíma til að skoða málið. Þá fyrst er ástæða til að staldra við og spyrja hver sé hin raunverulega ástæða asans á málinu þegar menn virðast vísvitandi gera það sem hægt er til að koma í veg fyrir að þingmenn skoði mál af sæmilegu viti á Alþingi.