Starfsleyfi fyrir THORP-endurvinnslustöðina

64. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 02:03:53 (2913)


[02:03]
     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Hér er ekki um neina sérstaka stefnubreytingu að ræða, eins og hv. síðasti ræðumaður hélt fram, heldur er um það að ræða að umhvn. flytur mál sem lýtur að samskiptum Íslands út á við og tengslum við önnur ríki, mótmælum við önnur ríki. Það er þess vegna í alla staði mjög eðlilegt að slík tillaga komi til meðferðar í utanrmn., hefði þess vegna jafnvel mátt gera það áður en málið kom fram. Það má vel vera að ef önnur mál frá öðrum nefndum eru með sama hætti tengd málefnasviði annarrar þingnefndar þá komi þessi málsmeðferð til greina. Þannig að ég held að það sé út í hött að gera athugasemdir við þetta, tala um þetta sem einhverja stefnubreytingu. Ég vek athygli á því og geri ekki ráð fyrir því að hv. þm. hafi haft tök á að kynna sér það, vegna þess að hann hefur verið mjög upptekinn á fundinum, eins og kunnugt er, að tillagan hefur tekið breytingum í meðförum utanrmn. Á henni hafa verið gerðar örfáar orðalagsbreytingar sem auðvitað sýna að það var í hátt við vandaða málsmeðferð að senda nefndinni þessa tillögu.