Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 12:56:29 (2921)


[12:56]
     Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Halldór Ásgrímsson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Enn heldur fjmrh. áfram að vitna í aðra. Nú er þetta ekki kaupmönnunum að kenna, nú er það Framsfl. að kenna. Ég vissi ekki að Framsfl. væri svona áhrifamikill í núv. ríkisstjórn. Það er alveg nýtt fyrir mér að hæstv. ráðherra hlusti svona grannt á það sem Framsfl. hefur að segja. Ég man aldrei eftir því að það hafi sérstaklega verið kallað á okkur til að leita ráða í þessu máli eða yfirleitt nokkru máli. Ég man ekki til þess að það hafi verið leitað eftir ráðum frá okkur í sambandi við fiskveiðistefnu og sjávarútvegsmál. Höfum við þá nokkra reynslu í því? Ég man aldrei eftir því að hæstv. fjmrh. hafi sérstaklega kallað á okkur í Framsfl. til að biðja um ráð í þessu máli. En nú kemur hann hér og segir: Þetta er framsóknarmönnum að kenna. Og hver er ástæðan fyrir því að þetta er framsóknarmönnum að kenna? Það er vegna þess að það mun hafa verið ályktað í flokknum um þetta, það er rétt. En það vill nú svo til að við höfum ekki haft aðstöðu til að kafa eins mikið ofan í þetta mál og hæstv. ríkisstjórn. En við höfum verið að gera það síðustu dagana og tína gögnin út úr ríkisstjórninni og hæstv. ráðherrum sem hafa ekkert legið á lausu. Og það er þá sem menn átta sig á því hvað er verið að gera rangan hlut. Og auðvitað verður ríkisstjórnin að standa undir ábyrgð. En hæstv. fjmrh. ætlar að koma hér skipti eftir skipti og segja: Ég er saklaus, þetta er ekki mér að kenna, þetta er hinum að kenna. Þarna eru vondu strákarnir. Við höfum ekkert að gera með svoleiðis fjmrh.