Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 15:33:45 (2924)


[15:33]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hv. þm. notaði mest af sínu púðri í umræður um Framsfl. og stefnu hans í virðisaukaskattsmálum. ( Gripið fram í: Það eru líka mestu ...) Ég kem að hinum pólitísku tíðindum. Sá sem hér stendur hefur alla tíð barist fyrir því að innlend matvæli séu ódýrari og lægra skattlögð heldur en innflutt. Það gerði ég haustið 1989. Ég beygði mig fyrir þeim rökum að það væri illtæknilega framkvæmanlegt og samþykkti þá leið sem formaður og varaformaður Alþb. lögðu til að endurgreiða þetta niður í lægra þrep.
    Ég vil einnig, virðulegi forseti, leyfa mér að lesa hér upp úr umsögn Þjóðhagsstofnunar um tillögu 2. minni hluta. Þar segir svo, með leyfi forseta: ,,Umræddar tillögur hafa með ýmsum hætti áhrif á kaupmátt. Þannig hefur minni verðbólga í för með sér aukinn kaupmátt og í sömu átt ganga að sjálfsögðu hækkanir bóta. Á móti vegur hins vegar að skattar á eignir eru hækkaðir. Í tillögunum felast því tilfærslur í skattlagningu á þá leið að kaupmáttur launa og hvers konar bóta eykst nokkuð en ráðstöfunartekjur eignamanna minnka.``
    Þetta eru þær tillögur sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hamast á móti.