Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 15:35:11 (2925)


[15:35]
     Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. hafi farið öfugu megin fram úr. Í fyrsta lagi eyddi ég ekki miklum tíma í Framsfl. og stefnu hans. Ég fór hins vegar dálítið yfir þau sögulegu tíðindi sem hér væru að verða, nefndi Framsfl., Alþfl. og ýmislegt fleira í því sambandi og lái mér hver sem vill. Staðreyndin er ósköp einfaldlega sú að Alþb. og Framsfl. hafa hér orðið viðskila, hafa mismunandi afstöðu til þessa máls, og þá er auðvitað ekkert annað en taka því eins og það er og ræða það. Ég sé ekki að það sé neitt öðruvísi þótt það gerist endrum og sinnum að stjórnarandstöðuflokkar verði ósammála heldur en iðulega er að stjórn og stjórnarandstaða deilir.
    Hitt er alrangt hjá hv. þm. að ég hafi eytt tíma í það að tala gegn tillögum 2. minni hluta. Ég held að ég hafi þvert á móti tekið það fram á nokkrum stöðum og það kemur fram í nefndarálitinu að við styðjum ýmsar þeirra. Ég er alveg hjartanlega sammála því og tilbúinn til að segja það að þær tillögur sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson hefur unnið og 2. minni hluti leggur fram, eru miklu betri útfærsla á þessum málum heldur en sú sem stjórnin ætlar að gera. ( FI: Þið bjargið þessu í gegn.) Hv. þm., ég legg bara til aðra hluti og þeir eru líka góðir og betri að mínu mati og geta menn ekki rætt hlutina á þeim forsendum?