Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 15:40:38 (2929)


[15:40]
     Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé í sjálfu sér ekki ágreiningur milli okkar fjmrh. um meðferð þessara talna, enda getur það varla verið. Það eina sem skiptir máli þegar menn fara yfir þessi bil er hvar menn velja upphafspunkt og lokapunkt. Og það er náttúrlega hefðbundin íþrótt þegar stjórnarskipti eru, hvorri stjórninni hvort ár tilheyrir. Það skiptir máli í þessum samanburði hvort árið 1988 eða 1989 er valið sem upphafspunktur fyrir fyrri ríkisstjórn, hvort árið 1991 tilheyrir fyrri eða núv. ríkisstjórn o.s.frv. En þessar tölur standa svona. Ég deili heldur ekki um það við fjmrh. að kaupmáttarfallið núna er nær því að falla saman við samdrátt þjóðartekna heldur en það gerði á þessu tímabili, en ef við tækjum svo aftur lengra tímabil inn í og toppana fyrir tíð fyrri ríkisstjórnar, þ.e. á árunum 1987 og 1988, þá verður samanburðurinn aftur öðruvísi.
    Um skattahækkanirnar, þá er það ekkert viðkvæmt mál. Ég er bara þakklátur hæstv. fjmrh. fyrir að viðurkenna það að hann viðheldur og bætir ofan á hæsta skattstig í sögunni.