Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 15:41:51 (2930)


[15:41]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Þegar hv. þm. segir að við viðhöldum sköttunum og bætum við, þá er það svo að fyrri ríkisstjórn hækkaði skatta, þegar það tekur heilt ár, um 10,6 milljarða eða þar um bil á meðan sú ríkisstjórn sem nú situr hækkar skatta á jafnlöngu tímabili um einn milljarð. En það eru ekki bara skattarnir sem segja söguna. Við skulum líta á útgjöldin.
    Hjá fyrri ríkisstjórn fór skattahækkunin í ný útgjöld. Hjá þessari ríkisstjórn hefur verið reynt að draga úr útgjöldunum því að allir vita að útgjaldatilefnin eru alls staðar í hinum opinbera rekstri. Okkur hefur tekist það mjög vel þegar tekið er tillit til þess að veltusamdrátturinn er svo mikill og það lýsir sér kannski best með því að ef við hefðum haft árferðið 1991 núna, þá mundu tekjurnar skila í ríkissjóð líklega um 7 milljörðum meira heldur en gert er ráð fyrir að komi nú. Í þessu liggur munurinn, því að allir vita að útgjöldin og hallinn er það sem máli skiptir, því að halli á ríkissjóði í dag myndar að sjálfsögu skuldir sem þarf að greiða með sköttum á morgun.