Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 17:00:46 (2939)


[17:00]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Einhvern veginn fannst mér á ræðu hv. þm. að nú væri svo komið að þingmaðurinn væri nánast á móti öllu, ríkisstjórninni, Framsfl. og almennt bara á móti og reyndar móti því líka sem hann ætlaði að styðja, sem ber kannski nýrra við.
    Þingmanninum var tíðrætt um stefnu Framsfl. varðandi virðisaukaskatt á matvæli. Þá vil ég taka það fram að í mínum huga er það markmiðið sem skiptir máli en ekki leiðin. Og markmiðið er að lækka verð á matvælum. Ég barðist fyrir því á haustþinginu 1989 að það yrði lægra virðisaukaskattsþrep á innlend matvæli. Ég beygði mig hins vegar fyrir þeim rökum að það væri tæknilega ekki framkvæmanlegt og það væri betra að endurgreiða vaskinn á ákveðnum vöruflokkum niður í 14%. Ég er sömu skoðunar enn. Ég er þeirrar skoðunar að meðan okkur líðst það, þá eigum við að gera betur við innlenda framleiðslu en innflutta. Og ég bendi á það að í skýrslu frá Þjóðhagsstofnun, sem við eigum að hafa undir höndum öll í efh.- og viðskn., er sagt að þessi aðgerð mundi auka innflutning á matvælum um 1,5 milljarða. Það skiptir ekki miklu og þýðir ekki marga bændur. Það þýðir hins vegar þó nokkuð marga sem fást við að vinna úr þessum vörum og koma þeim á markað.
    Ég vil einnig taka fram að ég hef alltaf gefið mér það að hvort sem menn eru að lækka virðisaukaskattinn meira eða minna, þá skili það sér út í verðlagið þannig að ég skil ekki alveg sjónarmið þingmannsins um það að lækkunin úr 24,5% niður í 23% muni í engu skila sér. Ég hef haft þá reynslu að hér sé svo virk samkeppni í innlendri verslun, smásöluverslun með matvæli, að slíkt skili sér. --- Nú vil ég spyrja virðulegan forseta hvort mér leyfist að tala hér eins og ég vil eða hvort hann ætli að fara að berja í bjölluna.
     (Forseti (KE): Forseti þakkar hv. þm. fyrir ábendinguna.)