Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 17:03:37 (2940)


[17:03]
     Frsm. 4. minni hluta efh.- og viðskn. (Ingi Björn Albertsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er ekkert á móti öllu. Ég var að lýsa andstöðu minni við tiltekinn þátt. Ég er ekkert á móti ríkisstjórninni en ég leyfi mér að hafa mína skoðun á einstaka málum sem slíkum. Ég styð

þessa ríkisstjórn ef þingmaðurinn er í einhverjum vafa um það. En það á ekki að koma neitt á óvart að ég sé á móti Framsfl. Það á ekkert að koma þingmanninum á óvart. Mig minnir að það sé til eitthvað sem heitir stjórn og stjórnarandstaða.
    En varðandi lækkunina úr 24,5% niður í 23 annars vegar og svo að fara með matvælin niður í 14%, þá erum við að tala um tvo ólíka hluti vegna þess að Framsfl. er að tala um miklu víðari stofn. Hann er að tala um að leggja þetta á allt. Ég er að tala um matvöruna eina og sér. Ef við ætlum að lækka matvöruna sem þessu nemur eða fara í tvö þrepin niður í 14%, þá er það marktækur munur að mínu mati. Hins vegar ef menn vilja fara í þessar eilífu niðurfærslur eða endurgreiðslur, eða hvað á að kalla það, þá er það auðvitað hægt. En ég er alveg sammála þingmanninum í því og það er mín meginskoðun að ég vil lækka matarverðið. Ef menn finna betri leiðir, gott og vel. En ég tel að Framsfl. hafi ekki bent á betri leiðir. En ef þær eru til, þá er það allt í lagi.
    Og ég vil jafnframt segja það að að sjálfsögðu tel ég að skattkerfi með einu þrepi sé betra. Ég held að því neiti ekki nokkur einasti maður. Ég tek því undir það. En aðalmálið er það að við erum að leita leiða til að lækka matarverðið í landinu, þá er það bæði innflutt og erlend matvara og ég treysti alveg innlendum matvælaframleiðendum til að standa í samkeppni við innfluttar matvörur. Þetta er því engin árás á þá. Við erum eingöngu hér að hugsa um hag neytendanna.