Skattamál

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 17:09:27 (2943)

[17:09]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er býsna sérkennilegt að sitja hér undir því að vilja ekki lækka matarverð í landinu. Ég mótmæli þvílíkum fullyrðingum harðlega og mun sýna fram á það í mínu máli hvaða aðrar leiðir eru færar að því marki og hvaða aðgerðir ég tel vera betri við þær aðstæður sem við nú stöndum frammi fyrir til þess að jafna kjörin í landinu.
    Mig langar til að byrja á því að minnast á það að í gærkvöldi og nótt voru hér harðar deilur um ákveðið frv. sem nefndarmenn þeirrar nefndar voru ekki sáttir við og gagnrýndu hvernig að afgreiðslu mála var staðið. Ég held að varðandi þetta frv. sem við erum að ræða um skattamálin sé ekki hægt að gagnrýna nefndina fyrir sleifarlag því að það hafa verið haldnir ótal fundir um þetta mál. Hins vegar er allur undirbúningur þess með þeim hætti að ég hef aldrei séð annað eins. Og ég vil taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á ráðuneytið og þá sem eiga að framkvæma þær breytingar sem hér er verið að leggja til fyrir það hvernig að málum er staðið.
    Það er alveg makalaust þegar menn semja um það í maímánuði að lækka virðisaukaskatt á matvælum niður í 14% að menn skuli ekki nota tímann til þess að undirbúa þá breytingu, gera úttekt á því hvað hún þýði, hverju þurfi að breyta, hvernig að skuli staðið, undirbúa þær reglugerðir sem þurfa að koma til þar sem menn skilgreina hvað er í hverju skattþrepi o.s.frv. Þetta eru auðvitað alveg makalaus vinnubrögð, en ég hygg að sú skýring sé rétt sem fram kom í máli síðasta ræðumanns að orsökin er einfaldlega sú að menn eru á móti þessu. Menn eru einfaldlega á móti þessu nema ef undan er skilið Alþýðusambandið. Það kom fram í máli fulltrúa Vinnuveitendasambandsins að það mætti svo sem að ýmsu finna en þeir meta dæmið þannig að það sé betra að tryggja hér vinnufrið í næstu 15 mánuði eða svo frekar en að fara út í breytingar á þessum samningum. En ýmis aðildarfélög VSÍ hafa komið með gagnrýni á þessa breytingu og önnur stéttarsamtök en ASÍ gagnrýna þá leið sem verið er að fara. Fyrst og fremst fyrir það í henni felist ekki sú tekjujöfnun sem stefnt var að.
    Það er mergurinn málsins að mínum dómi því að það er eitt að ræða það hvort taka eigi upp tveggja þrepa virðisaukaskatt, hvernig að því skuli staðið, hver prósentan eigi að vera o.s.frv. Annað er að koma í framkvæmd þeirri aðgerð sem samið var um í kjarasamningum í vor. Það er annað mál og þarf að skoða í ljósi þeirra aðstæðna sem við búum nú við í þjóðfélaginu og ekki síst þess að ekki er staðið við nema hluta af kjarasamningunum. Það var samið um þessa lækkun á matarskattinum en vegna þess hvað í því felst léleg tekjujöfnun var líka samið um það að komið yrði á fjármagnstekjuskatti og auk þess ýmsum öðrum hliðarráðstöfunum sem færu í vasa hinna betur stöddu en það er ekki gert. Eftir stendur því að matarskatturinn er lækkaður sem auðvitað kemur öllum til góða, það kemur öllum fjölskyldum til góða. En það kemur þeim meira til góða sem hafa meira fé vegna þess að það gefur auga leið að því meiri peningur sem fólk ver til matarkaupa þeim mun meira sparast. Ég mun koma betur inn á það á eftir að ein besta afstaðan sem ég hef heyrt til þessa máls kom fram hjá einstæðri móður sem sagði: Þessi lækkun kemur mér ekkert við vegna þess að ég er búinn að skera mín matarkaup svo mikið niður og þær matarvörur sem ég get leyft mér að kaupa fyrir mig og mitt barn hafa þegar verið lækkaðar í verði. Það sem nú á að fara að lækka, innflutta matvaran fyrst og fremst, er það sem ég get ekki leyft mér að kaupa. Ég set því stórt spurningarmerki við það hvernig þessi lækkun á matarskatti nýtist hinum lægst launuðu.
    Þar á ofan í þeirri umræðu sem hefur átt sér stað í dag er alltaf blandað saman þeirri lækkun sem átti sér stað strax í sumar þar sem samið var um auknar endurgreiðslur á landbúnaðarvörum og svo því sem á að fara að gera núna þegar lækka á skatt á innfluttum matvörum niður í 14%. Og ég set líka spurningamerki við þetta: Hvaða neyslustefnu má lesa út úr þessu? Hvaða menneldisstefnu má lesa út úr þessum aðgerðum? Það finnst mér vera mikilvæg spurning í þessu dæmi.
    Hins vegar er það óumdeilt hjá öllum þeim sem skila áliti í þessu máli að það eigi að niðurgreiða íslenskar landbúnaðarvörur og helstu nauðsynjavörur heimilanna niður í a.m.k. 14%. Það hefði mátt skoða það dæmi að fella virðisaukaskattinn á þessum matvælum alveg niður. Þeir segja mér í fjmrn. að það mundi kosta milljarð og að grípa þá til annarra hliðarráðstafana. Það er auðvitað mergurinn málsins. Það eru þessar nauðsynjavörur, mjólk, fiskur, sem reyndar munu hækka í verði því miður, kjöt og ýmsar þær vörur sem eru hluti af okkar innlendu framleiðslu sem skipta langsamlega mestu máli í matarkaupum fjölskyldnanna. Ég held því miður að sá misskilningur sé á ferð hjá mörgum, sem eru að ræða þetta mál, að halda að þær vörur muni lækka. Þær munu ekki lækka. Það er búið að lækka þær. Eins og ég nefndi áðan er það tillaga okkar allra að þeim endurgreiðslum á virðisaukaskatti verði haldið áfram og vörurnar verði greiddar niður sem nemur 14% virðisaukaskatti. Það er tillaga okkar þriggja sem myndum 2. minni hluta.
    Sú lækkun sem fram mun koma um áramótin er fyrst og fremst á öðrum vörum. Inni í þessu eru nauðsynjavörur eins og brauð og ávextir. En þetta skilar því miður sáralitlu. Þetta skilar láglaunaheimilunum í landinu sáralitlu. Eins og segir í grein sem ASÍ birti í Vinnunni, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt þessu mun staða lágtekjufjölskyldna batna um 1,7--2,2% um næstu áramót eða um 2.200--2.600 kr.``
    Það er það sem verið er að leggja til og þetta þýðir 0,8--0,9% lækkun á verðlagi vegna þess að meginhluti þessarar lækkunar er kominn fram. Og við hljótum að spyrja hvað þessi lækkun þýðir gagnvart innlendri framleiðslu og við hljótum að spyrja hvaða neyslustefna felst í þessum aðgerðum.
    Ég vil ítreka það hér að það er og hefur verið stefna Kvennalistans að það beri að lækka verð á matvælum. Matvælaverð hér á landi er allt of hátt. Ég minni á það að þingkonur Kvennalistans börðust af mikilli hörku gegn því að matarskatturinn væri lagður á. En það er eitt að setja á skatt og annað að afnema hann og það verður að skoða það hver tilgangurinn er. Hverju á að ná með þessari aðgerð Eins og ég nefndi hér áðan þá næst tilgangurinn, þ.e. að jafna aðstöðu fjölskyldnanna í landinu, ekki. Niðurstöðurnar sem við höfum fengið í okkar hendur í hv. efh.- og viðskn. eru svo misvísandi að við urðum að kalla til Þjóðhagsstofnun til þess að leggja eitthvert mat á þetta. ASÍ segir: Lækkun matarskatts --- kjarabót hinna tekjulægstu. Leyniskýrslan úr fjmrn. sem ekki mátti dreifa segir: Lækkun virðisaukaskatts á matvæli skilar sér betur til tekjuhárra en tekjulágra fjölskyldna.
    Þetta stangast hvað á annars horn. Ástæðan er sú að að fer mikið eftir því hvernig menn meta og hvernig menn reikna. Auðvitað er það ljóst að þá sem eyða tiltölulega mestum hluta sinna tekna í mat munar um lækkun. En þegar litið er á þetta í krónum eins og ég nefndi áðan, því meiri peningur sem fólk eyðir í mat, því meira sparast auðvitað á þessari lækkun. Niðurstaðan er sú samkvæmt útreikningum fjmrn. að þessir 3 milljarðar, --- þetta er kannski hin sorglega staðreynd að þessi tekjujöfnunarleið, að snara rúmlega 3 milljörðum kr. út úr ríkissjóði, 2,6 milljörðum reyndar þegar búið er að draga niðurgreiðslurnar frá, --- en ef horft er bara á þessa 3 milljarða þá fara 27% til hinna tekjulægri, 36% til hinna tekjuhærri þegar tekjuskalanum er skipt í tvennt og 21% fer í milliliði. Og samkvæmt þessum útreikningum, sem gerðir eru með því að taka mið af reynslu annarra þjóða, má reikna með að undanskot verði 16% af þessum þremur milljörðum. Og þetta á að vera kjarajöfnunaraðgerð. Meirihlutinn fer í milliliði og hina tekjuhærri. Hinar tekjulægri fjölskyldur fá rúmlega fjórðung af þessari upphæð í sinn hlut.
    Þetta vil ég setja í samhengi við þær breytingar sem hér hafa átt sér stað í skattamálum á undanförnum árum sem hafa þýtt að það er búið að flytja stórkostlega skattlagningu af atvinnulífinu yfir á almenning í landinu. Það er búið að flytja stórkostlega mikla skatta. Það er búið að hækka skatt á öllum almenningi, bæði tekjuskatt og setja á þjónustugjöld, skólagjöld og guð veit hvað og þegar þetta er skoðað í samhengi þá er enn ein tilfærslan hér upp á rúmlega 3 milljarða þar sem meiri hlutinn fer til hinna tekjuhærri. Hvers konar jöfnunaraðgerðir eru þetta? Er ekki hægt að finna betri leiðir til þess að bæta kjörin í landinu? Og þar á ofan vil ég benda á það að ef við viljum setja þessa aðgerð í samhengi við það sem verið er að gera og það sem er hér í þessu skattafrv. Nú bið ég þingmenn að taka vel eftir því hvað verið er að gera í þessu skattafrv. og reyndar öðrum sem eru til umræðu hér á þingi, það er verið að hækka tekjuskatt. Það er hækkun á tekjuskatti á alla línuna í þessu frv.
    Það á að hækka útsvar. Ég bið menn að taka eftir því og það er verið að tekjutengja ekkjubætur. Það er verið að leggja sérstaka skatta á áfengissjúklinga og þegar þetta leggst nú allt saman, eflaust gleymi ég einhverjum aðgerðum hérna, ég gleymi nú ekki virðisaukaskattinum á flutninga og ferðaþjónustu sem mun koma fyrst og fremst niður á því fólki sem býr úti á landsbyggðinni, en þegar við leggjum þetta allt saman, hver er þá útkoman fyrir launafólk í landinu, hver er útkoman? Þetta er sáralítil kjarabót sem þessi lækkun á virðisauka skilar og þar á móti er bara tekið úr hinum vasnum. Og það er grundvallarspurning í þessari umræðu hvort skiptir meira máli að hafa meiri peninga á milli handanna og geta þá ráðið því sjálfur í hvað þeim er varið eða það að lækka veðlag með þessum hætti sem skilar sér fyrst og fremst til hinna tekjuhærri þó að ég ítreki það enn einu sinni að auðvitað munar láglaunafólk um hverja einustu krónu. En það er bara verið að taka þessar sömu krónur af þeim með skattahækkunum. Ég hef ekki látið reikna þetta dæmi eða haft tíma til þess að reikna þetta út en mér segir svo hugur um að hér sé útkoman í mínus fyrir láglaunafólk í landinu.
    Auk þess er útkoman sú að þetta dæmi sem ríkisstjórnin setur upp kemur út þegar allar þessar aðgerðir eru lagðar saman sem verið er að vinna að hér í fjárlögum, skattalögum og ýmsum öðrum breytingum að niðurstaðan er samkvæmt frv., það kunna að hafa orðið einhverjar tölulegar breytingar þar á, sú að halli ríkissjóðs eykst um 1.230 millj. Það er niðurstaðan úr þessu dæmi. Og ég spyr eins og BSRB-fólkið sem kom á okkar fund: Hvernig mun þetta koma í bakið á okkur? Hvað verður að gera á næstu árum og hvað mun verða gert á næstu árum til þess að mæta þessum halla og þessu tekjutapi? Hvar kemur þetta niður? Og það er mjög vel skiljanlegt að það sé BSRB sem vekur athygli á þessu því að atvinna þeirra félagsmanna er í húfi. Það er atvinna þeirra sem mun verða í húfi með enn meiri niðurskurði í ríkisrekstrinum. Og við verðum horfa á þetta dæmi allt í heild í ljósi stöðu ríkissjóðs og þess hvernig hægt er að bæta kjörin þannig að það komi hinum lægst launuðu til góða. Það má lengi deila um aðferðir í því sambandi og menn hafa gert lítið úr því í umræðunni sem aðrar þjóðir hafa verið að fást við í þessum efnum en reyndin er sú að menn eru víða að skoða sitt skattkerfi. Það eru víðar skattsvik en hér og skattkerfið er víðar dýrt en hér og allar þessar upplýsingar sem við höfum fengið í hendur frá Noregi, Svíþjóð, Englandi og víðar og það sem okkur hefur verið sagt af gangi mála í Evrópubandalaginu þó að það sé svo sem ekki alltaf til fyrirmyndar þá er víðast hvar verið að stefna að því að einfalda skattkerfið og einfalda virðisaukaskattskerfið. Og hvað þýðir það? Það getur þýtt eitt þrep eða tvö þrep. Víðast hvar er stefnt að tveggja þrepa virðisaukaskatti og þá kemur inn í það hvort menn telja núllþrep eða það hvort einhverjar vörur séu undanþegnar virðisaukaskatti, hvort það er talið þrep. En víðast hvar er verið að einfalda þetta kerfi og mergurinn málsins er sá að ef það er vilji til þess eins og t.d. stefna Kvennalistans kveður á um að taka upp tveggja þrepa virðisaukaskattskerfi þá á bara að gefa sér tíma til þess. Þá er það mál sem kallar á góðan undirbúning, stefnumörkun og að menn geri sér grein fyrir kostum og göllum, orsökum og afleiðingum, en að það sé ekki hlaupið svona til eins og hér er verið að gera án undirbúnings. Og ég segi það enn að við í efh.- og viðskn. höfum ekki fengið neina úttekt á hvað þetta þýðir í heildina litið, hvað þetta kostar eða hver áhrifin verða. Það er engin slíkt úttekt til.
    Hver á stefnan að vera? Hver er stefnan í skattamálum? Hver er stefna þessarar ríkisstjórnar? Er

það bara að hlaupa svona til og frá í einhverjum ákvörðunum og láta ASÍ og VSÍ ákveða það hvernig skattamálum skuli háttað hérna? Ég tek undir það með hv. þm. Inga Birni Albertssyni að ég er ekki hér á vegum ASÍ. Ég er ekki hér til þess að greiða atkvæði samkvæmt vilja ASÍ. Það er okkar hlutverk að gæta hér almannahags og taka skynsamlegar ákvarðanir, en það breytir auðvitað ekki því að ríkisstjórnin og þeir sem með þessi mál fara hafa náttúrlega sýnt alveg ótrúlegt kæruleysi í því að undirbúa ekki þessar breytingar. Og stjórnarhættir af þessu tagi eiga náttúrlega ekki að eiga sér stað. En niðurstaðan af því er sú að það verður að fresta þessu því að það verður algert öngþveiti hérna upp úr áramótunum. Og hvað kostar þetta? Hvað má skattheimtan og skattkerfið kosta? Eigum við að vera að eyða milljörðum í það að innheimta skattana eða eigum við ekki allir að spyrja okkur að því hvort það sé hægt að gera það á ódýrari hátt? Eigum við ekki að setjast niður og ákveða hver stefnan á að vera í stað þess að hlaupa svona til?
    Það væri full ástæða til þess að fara rækilega ofan í það hvernig þetta mál er til komið og hvaða sýnilegu afleiðingar það mun hafa en eins og ég hef nefnt var samið um það sl. vor að auka endurgreiðslur eða niðurgreiðslur á öllum helstu innlendu matvælum niður í 14% og síðan skyldi virðisaukaskatturinn á öllum matvælum fara í 14% um áramót og ég ítreka það enn og aftur að mér vitanlega er ekki um það deilt að það beri að greiða þessi nauðsynlegustu matvæli niður í jafnvel 14% eða eitthvað minna jafnvel eða meira. Þessi 14% tala er ekkert heilög en þessum breytingum tengjast líka aðrar breytingar sem er að finna hér í þessu frv., það eru breytingar á vörugjöldum, tollum og út úr þeim breytingum les ég ákveðna neyslustefnu sem ég vil kalla sykurstefnuna. Það er erfitt að átta sig á því hvernig verðlagningin á sykri verður og hvað það þýðir þegar hann er kominn í vörur en það var hætt við það að hækka vörugjald á sælgæti og gosdrykkjum til þess að bæta samkeppnisstöðu þessarar innlendu framleiðslu gagnvart innflutningi og þá sérstaklega ávaxtasafa og reyndar kaffi og te. Það er horft á þetta í því samhengi og sælgætið andspænis kexi og öðru slíku. Ég vil leyfa mér að draga það mjög í efa að það sé skynsamleg neyslustefna að hætta niðurgreiðslum á fiski þannig að hann hækki í verði en að halda niðri verði á sælgæti og gosdrykkjum, mér finnst þetta ekki skynsamleg neyslustefna. Mér finnast þetta ekki skynsamlegir hollustuhættir sem hér er verið að ýta undir og spurning hvort ekki hefði þurft að trappa þetta niður með öðrum hætti.
    Það er annar þáttur í þessu máli sem vert er að gefa gaum en menn gera reyndar ótrúlega lítið úr hér í umræðunni. Það eru hin skattalegu rök og það eru kannski ekki síst þau sem hefðu kallað á meiri umræðu og meiri athugun á þessu máli. Því er spáð að þessi lækkun á virðisaukaskattinum þýði það að skattsvik eða undanskot muni aukast og eins og ég hef nefnt þá er reiknað með því í skýrslu fjmrn. að þau undanskot geti numið allt að 500 millj. kr. Það er verið að gera kerfið flóknara, það er verið að flækja kerfið og það er verið að gera það dýrara. Ég sló á það í fjárlagafrv. hvað skattkerfið kosti okkur nú þegar. Ef bara eru lagðar saman tölurnar af kostnaðinum við skattstofurnar og skatteftirlitið þá eru þar 1.100 millj. og hér stendur til að auka þann kostnað um einhver hundruð milljóna. Það er mjög óljóst hver sá kostnaður er og þetta þarf allt að meta í samhengi. Þarna er auðvitað spurning um afstöðuna til þess hvort það eigi að taka upp tveggja þrepa virðisaukaskattskerfi og hafa það við lýði. Og eins og ég hef margoft sagt, það er umræða sem hefði þurft miklu meiri undirbúning.
    Enn eitt sem skiptir máli í þessu samhengi er sú spurning hvaða áhrif þessi virðisaukaskattslækkun muni hafa á innlenda framleiðslu. Hvaða áhrif hefur það þegar það gerist? Vonandi skilar þessi lækkun sér þó að ýmsir séu vantrúaðir á það. Hvaða áhrif hefur það þegar þessi innflutta matvara og hráefni lækka í verði? Það gerist ekki með innlendu vöruna, hún stendur í stað og fiskurinn hækkar, hvaða neyslubreytingar kunna að eiga sér þar stað.
    Til að vera sanngjörn vil ég minna á að ýmsar unnar kjötvörur munu lækka í verði þannig að þetta er hluti af dæminu sem menn þurfa líka að velta fyrir sér.
    Það hefur nokkuð verið komið inn á afstöðu ASÍ til þessa máls en það er eins og afstaða annarra launþegasamtaka skipti engu máli og jafnvel þó að ASÍ bendi á að þetta sé ómarkviss aðgerð þá er eins og það komi ekki til greina að endurskoða það. Í þeirri greinargerð sem Alþýðusambandið sendi hv. efh.- og viðskn. segir, og ég bið þingmenn að taka vel eftir þessu, með leyfi forseta:
    ,,Samninganefnd ASÍ var þegar í vor ljóst að lækkun matarskattsins væri ekki sú markvissasta tekjujöfnunaraðgerð sem hægt væri að grípa til. Hins vegar mætti meta slíka breytingu sem tiltölulega varðanlega aðgerð.``
    Og þeir hafa lagt mjög mikla áherslu á það í sínum rökstuðningi að þrátt fyrir allt muni þessi breyting verða varanleg. En hvað kemur ASÍ til að halda það að 14% virðisaukaskattur sé einhver varanleg aðgerð? Það á ég erfitt með að skilja því að ég man ekki betur en menn séu nú búnir að vera að sveifla þessum tölum upp og niður í áranna rás og menn þekktu það meðan söluskattskerfið var við lýði að það var ekki aldeilis mikill varanleiki eða stöðugleiki í því kerfi og að láta sér detta það í hug að þessi ákvörðun verði eitthvað varanleg, ég dreg að stórlega í efa miðað við þá efnahagsstefnu sem hér hefur verið við lýði árum saman. Ég leyfi mér að draga það stórlega í efa.
    Ég tel mig ekki hafa leyfi til þess að vitna í það sem hæstv. fjmrh. sagði hér á göngunum áðan og reikna með að það hafi verið sagt meira í gríni, menn hafa þegar orðað þetta. Menn hafa þegar orðað það hvort það komi ekki til greina að þessi ákvörðun nái bara til tveggja ára. Það hefur verið orðað í þessari umræðu þannig að ég vil vara menn við því að líta á þessa aðgerð, lækkun matarskatts í 14% sem

eitthvað varanlegri eða öruggari aðferð en þá að greiða niður matvæli. Ég á erfitt með að sjá það og þegar menn víla ekki fyrir sér að fara svona undirbúningslaust út í þessar breytingar, hvers vegna ættu þá einhverjar ríkisstjórnir, þessi eða aðrar að hika við að hækka þennan skatt eða lækka þó að þær kalli á breytingar í sjálfu kerfinu? Mér finnst því sú röksemd að þetta sé eitthvað varanlegt ekki vega þungt í þessari umræðu.
    En ég vil aðeins vitna í það sem önnur stéttarsamtök segja um þetta mál og vitna þá fyrst í umsögn BHMR. Það var svolítið skondið þegar fulltrúar BHMR komu á fund nefndarinnar og menn voru að lýsa því harmi lostnir að það væri engu hægt að breyta í þessum kjarasamningum. Það þótti BHMR-fólki sérkennilegt sem fékk á sig bráðabirgðalög á sína kjarasamninga hér fyrir nokkrum árum og það er ekki sama hver er. En auðvitað hefði verið hægt að fresta þessum aðgerðum eða grípa til annarra aðgerða þannig að það væri hægt að standa skynsamlega að þessum málum. En BHMR segir í sínu áliti, með leyfi forseta:
    ,,BHMR telur óskynsamlegt að hafa tvö þrep í virðisaukaskattskerfinu. Þessi afstaða byggist í fyrsta lagi á því að til eru mun ódýrari og skilvirkari leiðir fyrir ríkissjóð til að ná fram áformuðum velferðaráhrifum fyrir fjölskyldurnar, t.d. með beinum millifærslum.
    Í öðru lagi verða til mörg vandamál við framkvæmd skattkerfisins sem ekki er hægt að líta fram hjá. Má þar nefna vanda seljenda að vita með vissu hvaða skatthlutfalli skuli beita á hvern vöruflokk. Þetta felur í sér mismunun gagnvart minni rekstraraðilum í samkeppni við þá sem hafa yfir að ráða fullkomnara bókhalds- og sjóðskerfi. Þetta felur einnig í sér aukna erfiðleika hjá rekstraraðilum við uppgjör virðisaukaskatts sem getur í raun ýtt undir skattsvik. Dæmi um ákvæði sem virðist örðugt að framkvæma er a-liður 18. gr. frv. sem aðskilur tilreiddan morgunmat frá öðrum tilreiddum mat. Sá einfaldleiki sem tilkoma virðisaukaskatts átti að byggja á hverfur með þessum breytingum. Jafnframt verður eftirlitsþáttur skattyfirvalda mun erfiðari og möguleikar á vélrænu eftirliti eru nánast úr sögunni.``
    Möguleikar á vélrænu eftirliti eru nánast úr sögunni, segir hér. Þetta álit er unnið af laganefnd BHMR. Þar eru innan dyra menn sem vinna í skattkerfinu og þekkja þetta vel og nákvæmlega sömu sögu hafa BSRB-fulltrúar sem vinna á skattstofum landsins að segja. Þeir hafa ákaflega litla trú á þessum breytingum eða að þessar breytingar séu skynsamlegar. Á ekki að hlusta á það fólk? Skiptir engu hvað það fólk segir sem vinnur við þetta kerfi? Skiptir það engu máli?
    BSRB sendi bréf til efh.- og viðskn. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,BSRB telur að lækkun virðisaukaskatts á matvælum sé kostnaðarsöm og ómarkviss aðgerð og leiði ekki til tekjujöfnunar.``
    Síðar segir í þessu bréfi:
    ,,Ljóst er að flestar aðrar skattbreytingar sem gert er ráð fyrir í frv. eru til þess að standa straum af tekjutapi vegna lækkunar virðisaukaskatts á matvælum og fela í sér auknar álögur á almenning. Þessu hefur BSRB margoft mótmælt.``
    Þetta segir BSRB um skattinn og sendir með grein eftir Rannveigu Sigurðardóttur, hagfræðing BSRB, sem hún skrifaði sl. vor þegar þessar hugmyndir voru efst á baugi þar sem hún sýnir fram á það hvernig þessar breytingar koma tölulega við almenning þar sem meira kemur í hlut þeirra sem hærri hafa tekjurnar. Það er niðurstaða hagfræðings BSRB að hinir tekjuhærri fái fleiri krónur í sinn hlut, þeir geta sparað meira, þeir geta lagt fyrir á meðan hinir tekjulægri fá færri krónur í sinn hlut.
    Það sem menn eru auðvitað að spyrja um í þessu dæmi er það: Eru ekki til betri aðferðir? Eru ekki til betri aðferðir til að jafna kjörin? Þetta er veigamikil spurning og ég skal alveg viðurkenna það hér úr þessum ræðustól að þegar þessir samningar voru gerðir þá hugsaði ég: Mikið var að ASÍ samdi um eitthvað af viti. Meðal annars vegna þess að mín stjórnmálasamtök hafa eins og ég nefndi áðan barist hart gegn matarskatti og verið þeirrar skoðunar og eru þeirrar skoðunar að það beri að lækka verð á matvælum. En þegar maður fer að kynna sér þetta mál og skoða það hvernig að verki er staðið þá er það einfaldlega þannig --- eða mín skoðun er sú --- að við í stjórnarandstöðunni getum ekki tekið ábyrgð á þessu. Það er ekki hægt að taka ábyrgð á því að þannig sé staðið að verki. Auk þess sem sú kjarajöfnun sem átti að nást næst ekki enda ekki staðið við nema hluta af samningnum. Það er ekki staðið við nema hluta af þeim samningum sem gerðir voru við ASÍ. Ríkisstjórnin hefur enn einu sinni, enn einu sinni gefist upp á því að koma á fjármagnstekjuskatti. Enn einu sinni. Það er svo merkilegt að það virðist vera algerlega óframkvæmanlegt. Menn geta tekjutengt hér út og suður hjá ekkjum og barnafólki og gamalmennum, það vefst ekki fyrir ríkisstjórninni, en þegar kemur að fjármagnstekjuskatti er það algjörlega óframkvæmanlegt verk. ( ÓÞÞ: Tölvurnar brenna yfir.) Já, það er svo einmitt, útreikningarnir eru svo svakalegir að tölvunetin springa. Þetta er auðvitað algjörlega óþolandi.
    Þess vegna var það sem við, 2. minni hluti í efh.- og viðskn., settumst niður til að setja upp aðra leið, reyna að setja upp aðra leið í þessu dæmi. Hún er kannski ekki sú fullkomnasta í heimi en hún kemur betur út fyrir ríkissjóð og hún kemur betur út fyrir launafólk ekki síst vegna þess að við gerum ráð fyrir verulegri hækkun á barnabótaauka sem mundi skila þeim fjölskyldum sem fá barnabótaauka 10.000 kr. á mánuði til viðbótar meðan þessi lækkun á virðisaukaskatti á matvælum, sem hér er verið að tala um, skilar fjölskyldunum rúmlega 2.000 kr., ja, 2.200 kr. Og ætla menn að segja að það séu ekki betri leiðir færar til að jafna kjörin í landinu? Ég hafna því algerlega.

    Ég hef eytt hér miklum tíma í að ræða um virðisaukaskatt á matvæli enda er hann kannski eitt stærsta málið í þessu frv. En eins og síðasti ræðumaður nefndi, hv. þm. Ingi Björn Albertsson, þá eru í þessu frv. mörg önnur mál og ég get tekið undir það að þau hafa um margt fallið í skuggann af þessu virðisaukaskattsmáli. Ég ætla aðeins að tæpa hér á nokkrum atriðum.
    Er þá fyrst að nefna það sem ég hef reyndar nefnt áður sem er það að þetta frv. felur í sér hækkun á tekjuskatti á alla línuna. Tekjuskattur er hækkaður um 0,35% á alla línuna og það á aðskila 685 millj. kr. í ríkissjóð. Það gefur auga leið að einhvern veginn þarf ríkissjóður að ná inn tekjum á móti þessum 3 milljörðum sem er tekjutap ríkissjóðs af því að lækka virðisaukaskattinn. En þessi aðgerð er jafnóréttlát fyrir því. Auðvitað þarf að ná inn tekjum en ég mótmæli því enn og aftur að tekjuskattur sé hækkaður svona á alla línuna eins og gert hefur verið ítrekað. Hér hefði auðvitað átt að leggja skatta á hina efnameiri. Ná alla vega þessari lækkun á virðisaukaskattinum sem fer í ríkari mæli til hinna efnahærri, ná því inn aftur með tekjuskatti. Það hefði þá verið einhver örlítil jöfnun í því.
    Síðan er það atriði sem snýr að vaxtabótunum þar sem í frv. er fyrst og fremst verið að útfæra það sem samþykkt var í umræðunni sem átti sér stað fyrir ári um aðgerðir í skattamálum og þessi aðgerð á að spara 400 millj. kr. Ég vil minna á það að þessi niðurskurður á vaxtabótunum er auðvitað liður í samfelldum sparnaðar og niðurskurðaráformum ríkisstjórnarinnar. Menn eru misjafnlega sáttir við þessar breytingar. Þær koma fremur við hina tekjuhærri og eignameiri sem betur fer en þá sem verr standa að vígi. En það er alveg ótækt að það sé stöðugt verið að krukka vaxtabótakerfið með þessum hætti sem verið er að gera. Og ég minni enn og aftur á að stuðningur Kvennalistans við húsbréfakerfið byggðist m.a. á því að það yrði ekki byrjað að krukka í vaxtabótakerfið. Það fengi að vera í friði burt séð frá nauðsynlegum leiðréttingum á göllum sem kæmu fram. En það er ár eftir ár búið að krukka í þetta. Ég minni líka á að á næstu árum koma út á húsnæðismarkaðinn hópar, t.d. þeir sem nú eru í námi, og þurfa að standa undir miklum og dýrum námslánum og þungum endurgreiðslum og sá hópur þarf að afla sér mikilla tekna til að geta komið sér þaki yfir höfuðið. Hann fær ekki miklar vaxtabætur er ég hrædd um samkvæmt þessum breytingum.
    Þá ætla ég að víkja að öðru virðisaukaskattsmáli sem er virðisaukaskatturinn á ferðaþjónustu og flutninga. Ég minni á það að fyrir ári síðan börðumst við mjög hart gegn því að þessi skattur yrði samþykktur. Við erum í rauninni að tala hér um ársgamla samþykkt en nú á að fara að framkvæma hana. Og það er svo ótrúlegt að þó menn hafi hrokkið illilega við þegar þetta mál var til umræðu fyrir ári síðan að þá er eins og sú umræða hafi legið í láginni en núna þegar er að koma að framkvæmdinni þá loksins taka menn við sér og hafa enn á ný hafið baráttu fyrir því að þessi skattur verði felldur niður. Það er merkilegt að velta því fyrir sér í þessu samhengi að fyrir allmörgum árum, ég man nú ekki hvenær það var, þá tóku Svíar upp á því að skattleggja ferðaþjónustu í Svíþjóð, setja hana undir virðisaukaskattkerfið og það varð hrun í sænskum ferðamannaiðnaði. Það varð algert hrun og Svíar urðu að grípa til þess ráðs að lækka þennan skatt, þeir gerðu það í þrepum. Þeir urðu að leggja út í gríðarlega kostnaðarsama herferð til að kynna Svíþjóð að nýju, reyna að vinna ferðamannamarkaðinn upp aftur vegna þessara hrapallegu mistaka sem þarna voru gerð. Þetta voru hrapalleg mistök. Og allir þeir aðilar úr ferðaþjónustunni sem hafa komið á okkar fund á undanförnum dögum og vikum segja: Verðlag í ferðaþjónustu á Íslandi er í hámarki. Það er í algeru hámarki og hinir erlendu aðilar sem verið er að vinna með og eru að senda ferðamannahópa hingað segja: Þið megið ekki hækka verðið. Þið verðið að reyna að ná verðinu niður. Þið verðið að reyna að lækka verðið. Annars bara verðleggið þið ykkur út af markaðnum eins og Svíarnir gerðu. En það virðist vera alveg sama hvað sagt er og á hvað er bent, það er eins með þetta og lækkun á virðisaukaskatti á matvælum sem flestir stjórnarliðar eru gagnrýnir út í að þessu má ekki breyta, það má ekki breyta þessu, bara ekki.
    Þjóðhagsstofnun lagði mat á það í fyrra hvað áhrif þessi virðisaukaskattshækkun mundi hafa og hún mat það þannig að störfum mundi fækka um allt að 100. Hún mat það þannig að það yrði samdráttur í greininni og greinin yrði að taka á sig allnokkurn kostnað vegna þessarar vinnu sem þarf að leggja í vegna virðisaukaskattsins og þetta mundi þýða hækkun á verði. Síðan birtist í þessu frv. útfærsla á þessum tillögum sem er vægast sagt kostuleg þegar farið er að skoða hvað þetta þýðir. Eins og framkvæmdastjóri Ferðamálaráðs rakti fyrir okkur og reyndar fleiri þá skiptir það öllu máli hvort maður byrjar á því að leigja sér veiðistöng. Veiðistöng með gistingu ber ekki virðisaukaskatt en gisting sem felur í sér veiðileyfi er með 14% virðisaukaskatti. Ef menn ætla á stangveiðar þá skiptir öllu máli hvort báturinn er undir eða yfir sex metrum. Ef hann er undir sex metrum þá ber ferðin 14% virðisaukaskatt ef báturinn er yfir sex metra á lengd þá þarf ekki að borga virðisaukaskatt. Og eins og framkvæmdastjórinn sagði í þessari heimsókn til okkar í hv. efh.- og viðskn. þá er með þessum ákvörðunum og þessum útfærslum sem hér eru á ferð verið að raska samkeppnisstöðu fyrirtækjanna. Vegna þess að þeir sem eiga þess kost geta auðvitað farið að leika sér með svona atriði. Eins og hv. formaður efh.- og viðskn. komst að orði, koma menn bara fyrir veiðistöng í hverju hótelherbergi og leigja út veiðistöng með gistingu. Svona vitleysa á ekki að eiga sér stað.
    En mergurinn málsins er sá, frú forseti, að ferðaþjónustan er nánast eini vaxtarbroddurinn í okkar atvinnulífi. Í Ferðamálaráði telja menn að verðlag sé komið eins hátt og mögulegt er. Þessi upptaka virðisaukaskatts mun kalla á verðhækkanir og þar af leiðandi má búast við því því miður að þessi skattur muni

reynast þessari atvinnugrein afdrifaríkur. Hann muni hafa afdrifarík áhrif á stöðu greinarinnar. Og það hefur verið vöxtur í ferðaþjónustunni. Hún skilaði yfir 12 milljörðum kr. í gjaldeyristekjur á þessu ári, það sem af er þessu ári eru gjaldeyristekjur um 12 milljarðar kr. og það hlýtur öllum að vera ljóst að við megum ekki við neinu tekjutapi, við megum ekki við því að missa gjaldeyristekjur. Það er algerlega útilokað.
    Frú forseti. Nú stendur þannig á að það hefur verið boðaður fundur í hv. efh.- og viðskn. vegna þess að okkur er að sjálfsögðu mjög í mun að ljúka þeim málum sem vísað hefur verið til nefndarinnar og ég verð að óska þess að fá að fresta ræðu minni.
    ( Forseti (KE) : Það er rétt að nú hefur verið boðaður fundur í efh.- og viðskn. þannig að ef þingmaðurinn á mikið eftir af ræðu sinni og er staddur þar að hann getur frestað ræðunni þá væri það ágætt. En ef ræðumaður á örstutt eftir þá væri auðvitað sjálfsagt að leyfa ræðumanni að ljúka máli sínu.)
    Ég lít svo á að það sé nú nokkuð eftir. Ég á eftir að ræða fleiri atriði í þessu frv. og síðan ætla ég að koma nokkuð inn á þjóðhagshorfur og reyndar að skýra betur þær tillögur sem 2. minni hluti efh.- og viðskn. leggur til í málinu, þannig að ég vil óska þess að fá að fresta ræðu minni.
    ( Forseti (KE) : Það er þá rétt að þingmaðurinn fresti ræðu sinni þangað til síðar.)