Iðnlánasjóður

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 18:10:22 (2946)


[18:10]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Iðnn. fjallaði um þetta mál, eins og fram kom í máli hv. 5. þm. Norðurl. e., á tveimur fundum og ræddi þá við fulltrúa ráðuneytisins og samtaka iðnaðarins. Það voru ágætar umræður. Þar kom fram að heildarálagning þessara gjalda, sem hér er verið að tala um að samþykkja, nemur á ársgrundvelli liðlega 240 millj. kr. sem er auðvitað talsvert há upphæð og að nokkru leyti er hér um að ræða, má segja, eins konar félagsgjöld samtaka iðnaðarins. Fyrir allmörgum árum, tíu árum eða svo, þá kom það til tals að samtök iðnverkafólks fengju hluta í þessu iðnaðarmálagjaldi. Af því varð þá ekki og síðan hefur sú umræða að mestu leyti fallið niður enda þótt auðvitað séu full rök fyrir því að halda henni uppi í sjálfu sér. En það verður að segja að það er nokkuð sérkennilegt að á sama tíma og ýmsir aðilar í þjóðfélaginu gagnrýna harðlega skylduaðild að verkalýðsfélögum skuli vera flutt frumvörp sem gera ráð fyrir að það sé um að ræða skylduaðild að atvinnurekendafélögum og félagsgjöldin séu innheimt með lagaákvæðum. Það er afar sérkennilegt mál en þannig liggur þetta.
    Ég tók um það ákvörðun fyrir mitt leyti að styðja þessi frumvörp. Ég tel að þau feli ekki í sér neina efnisbreytingu frá því sem verið hefur að öðru leyti en því sem fram kom í máli hv. 11. þm. Reykv., að það er gert ráð fyrir því að 0,5% af þessu gjaldi renni til ríkissjóðs sem eins konar innheimtulaun. Fulltrúi samtaka iðnaðarins sem kom á fund iðnn. í gærkvöldi gagnrýndi þetta ekki, sagði að samtök iðnaðarins mundu láta þetta yfir sig ganga, en benti á að atvinnurekendur í landinu væri að innheimta ýmislegt fyrir ríkið, gjöld af ýmsu tagi, skatta af ýmsu tagi og sagði sem svo: Fyrst að ríkið fer þessa leið, að því er varðar þau gjöld sem við fáum, þá munum við náttúrlega ræða það við ríkisstjórnina fljótlega að við fáum innheimtulaun fyrir þá peninga sem við erum að rukka inn fyrir ríkið --- og horfði heldur bjartsýnn til framtíðarinnar með hliðsjón af því að atvinnurekendur í landinu eru auðvitað að rukka heilmikið inn fyrir ríkið, eins og menn þekkja.
    En allt um það, þá er fyrirvari minn sama eðlis og sá sem hv. 11. þm. Reykv. gerði grein fyrir. Að öðru leyti mun ég styðja þessi frumvörp.