Iðnlánasjóður

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 18:13:12 (2947)


[18:13]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég skrifaði einnig undir nál. iðnn. með fyrirvara að því er varðar það mál sem nú er á dagskrá og næsta mál, þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum um Iðnlánasjóð og um iðnaðarmálagjald. Ég þarf ekki að bæta miklu við það sem hefur verið sagt á undan því mínir fyrirvarar varða svipuð atriði. Með þessum frumvörpum er ekki verið að gera efnisbreytingar á lögunum heldur fyrst og fremst verið að breyta skilgreiningu á þeim gjaldstofni sem þarna er um að ræða, þar sem ekki er lengur tekið aðstöðugjald af fyrirtækjum.
    Ég set ákveðinn fyrirvara við þetta gjald sem ríkissjóður tekur fyrir að innheimta iðnlánasjóðsgjald og iðnaðarmálagjald, þó ég sé ekki þar með að segja að það geti ekki komið til greina að tekið sé gjald í ríkissjóð fyrir slíka innheimtu. Við verðum samt að gera okkur grein fyrir því að fyrirtæki innheimta fyrir ríkissjóð í stórum stíl og var einmitt bent á það af hálfu fulltrúa samtaka iðnaðarins sem komu á fund nefndarinnar, að það væri ósamræmi í því að ríkissjóður gæti tekið gjald fyrir innheimtu, en það gilti ekki það sama um aðra.
    Mér þykir einnig nokkuð sérkennilegt að hér skuli vera lagt fram af hálfu ríkisstjórnarinnar frv. sem lögbjóða aðild að atvinnurekendasamtökum, eins og hér er um að ræða, og vek athygli á því að samtök launafólks fá ekki neinn hluta af þessu gjaldi sem er þó verulegt, eins og fram kemur í fskj. með þessu frv. frá fjmrn. Þannig að ég mun styðja þetta frv., eins og fram kemur í nál., þó ég hafi þar ýmsar efasemdir og fyrirvara á um að þetta fyrirkomulag sé rétt. En það vannst ekki tími til þess að fara sérstaklega ofan í þetta mál svo ég ákvað að ekki væri ástæða til þess að tefja það að málið næði fram að ganga.