Iðnlánasjóður

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 18:21:25 (2949)


[18:21]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem fram kom í máli hv. 4. þm. Norðurl. v., sérstaklega um málefni skipasmíðaiðnaðarins. Það er ekki mjög langt síðan við ræddum það dálítið og segja má að það sé í grófum dráttum tvennt sem Alþingi með beinum hætti getur gert að því er varðar skipasmíðaiðnaðinn. Það er annars vegar breyting á lögum sem tryggja að unnt sé að grípa til jöfnunaraðgerða og breyting á lögum til þess að tryggja forgang íslensks skipasmíðaiðnaðar að meiri háttar viðgerðum á fiskiskipaflota okkar t.d., en í öðru lagi getur Alþingi auðvitað, að því er varðar skipasmíðaiðnaðinn, beitt sér fyrir víðtækum skuldbreytingaraðgerðum og endurfjármögnunaraðgerðum sem hljóta þá að koma öllum þeim fyrirtækjum sem í hlut eiga að nokkru leyti til góða þó ekki verði öllum bjargað, eins og það er stundum kallað. Ég tel að það sé nauðsynlegt í þessu sambandi að í aðgerðum af þessu tagi sé fyrirtækjum ekki stórlega mismunað, með öðrum orðum.
    Iðnn. hefur sent hæstv. iðnrh. bréf um þetta mál og sett fram þau sjónarmið sem fram komu í könnun nefndarinnar á málinu. Nefndin mun heimsækja sérstaklega skipasmíðaiðnaðinn á Akureyri í janúarmánuði og að því loknu geri ég ráð fyrir því að nefndarmenn muni ráða ráðum sínum, hvort sem það gerist með þeim hætti að það verði birt heildartillögugerð á vegum nefndarinnar, sem ég tel vel koma til greina, eða með þeim hætti að nefndin taki þátt í því, ásamt ríkisstjórninni, að tilkynna og grípa til aðgerða. Það er rétt að það hefur ríkt nokkur lognmolla í þessu, en ég tel þó að efnistök á þessu máli séu að mörgu leyti betri núna í tíð hæstv. iðnrh., Sighvats Björgvinssonar, heldur en þau voru áður og ég tel að af hálfu ráðherrans hafi komið fram fullur vilji til þess að vinna með þinginu að lausn þessa máls.