Iðnlánasjóður

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 18:26:40 (2951)


[18:26]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 4. þm. Norðurl. v. fyrir hans orð í þessu máli bæði nú og fyrr. Hann hefur sýnt það í málflutningi sínum hér að hann er skeleggur talsmaður þess að á því verði tekið að rétta við skipasmíðaiðnaðinn í landinu. Það er alveg rétt hjá honum að það eru allra síðustu forvöð í raun og veru að taka á þessum málum. Við höfðum það mjög sterkt á tilfinningunni þegar við í nefndinni fórum og skoðuðum skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts núna fyrir nokkrum dögum, að þarna værum við kannski að sjá síðasta skipið sem verið væri að smíða á Íslandi, svo illa er greinin í alvöru komin.
    Einn vandi endurfjármögnunar skipasmíðaiðnaðarins er fólginn í því að það er í raun og veru ekki til, að mínu mati, nein stofnun eða neinn farvegur fyrir endurfjármögnun af þessu tagi, eins og okkar stjórnkerfi er háttað. Þess vegna er það mjög flókið að koma við endurfjármögnun. Þetta er t.d. ekki eingöngu byggðamál, svo ég nefni dæmi, heldur er þetta mikið víðtækara mál og það er ofan á allt annað flókið að finna það út hvernig best er að koma þessari endurfjármögnun fyrir. Það er í öðru lagi alveg hárrétt hjá hv. þm. að það þarf að eiga sér stað skipulagsbreyting í greininni sjálfri. Ég er þeirrar skoðunar að þar þurfi menn að læra að vinna saman og menn þurfi í raun og veru að læra að skipta með sér verkum í stórauknum mæli. Ég held og er reyndar alveg viss um það, miðað við markaðsaðstæður hér á Íslandi, að þá á þessi grein verulega framtíð fyrir sér. Og ef rétt er á málum haldið þá getur auðvitað farið svo að sú lægð sem hefur gengið yfir skipasmíðaiðnaðinn, að ég segi ekki kreppa, verði til þess að menn læri ýmislegt og að upp úr þessari lægð eða kreppu spretti öflugri skipasmíðaiðnaður en við höfum nokkurn tímann átt í þessu landi.