Iðnlánasjóður

65. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 18:53:29 (2954)


[18:53]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Tómasi Inga Olrich fyrir ágætt mál að mörgu leyti, þó ég sé honum ekki fyllilega sammála. Það er rétt að stefnan er óljós í iðnaðarmálum og hér sárvantar iðnaðarstefnu og almenna atvinnumálastefnu. Hana vantar. Ég hef flutt um þetta tillögur og þær ná bara ekki eyrum þingmanna, því miður er það svo. En þetta er það sem sárlega vantar til þess að vinna eftir.
    Hann minntist einnig á að skipulagning í sjávarútveginum væri sveiflukennd. Það er rétt. Sjávarútvegurinn hefur hins vegar náð alveg ótrúlegum árangri í að endurskipuleggja sig og aðlaga sig þeim breyttu háttum sem eru í dag. Hann hefur reynt að verða við áköllum ríkisstjórnarinnar um að hagræða og skipuleggja og ná niður kostnaði. En hann getur ekki gengið lengra. Vegna hvers? Vegna þess að hann vantar stefnuna, hann vantar að vita hver verða starfsskilyrðin sem greinin þarf og má vænta að þurfa að búa við. Hann vantar þessa stefnu frá núv. ríkisstjórn og við hljótum að þurfa að kalla eftir henni hér.
    Þingmaðurinn minntist einnig á afkomuna og fór að horfa til fortíðar og það háir sjálfstæðismönnum mjög mikið, að horfa of mikið á það sem liðið er. Þeir eyða of löngum tíma í það og of litlum tíma í að reyna að horfa til framtíðar.
    Ég vil segja hv. þm. það að þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar lét af völdum þá hafði afkoma í iðnaði ekki verið jafngóð í fjöldamörg ár, eins og hún var þegar sú ríkisstjórn lét af völdum. Hins vegar, eins og ég gat um áðan, þá hefur snarlega versnað og það veit hv. þm., svo hriktir í stoðum iðnaðarins í hans heimabæ, Akureyri, sem svo sannarlega má muna sinn fífil fegri í iðnaðarmálum. Það alvarlega sem hefur verið að gerast er að það vantar stefnu í þessi mál og það tek ég undir með hv. þm.