Framleiðsla og sala á búvörum

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 22:37:20 (2965)


[22:37]
     Elín R. Líndal :
    Virðulegi forseti. Hér er nú fram komið frv. sem beðið hefur verið eftir, misjafnar væntingar manna um innihaldið og er vafalítið. Sú sem hér stendur var framan af lestri frv. harla sátt. En það var frá mér tekið þegar lengra var komið í lestrinum. Ég ætla að fara hér nokkrum orðum um stöðu bænda í dag.
    Þeir sem eiga lífsafkomu sína undir framleiðslu og sölu landbúnaðarvara standa vissulega á krossgötum nú þegar á að fara að flytja inn landbúnaðarvörur í stórum stíl. Ákveðið var að falla frá magntakmörkunum í GATT-samkomulaginu á innflutningi landbúnaðarvara eða búvara sem lúta að framleiðslustýringu og fara að flytja inn að lágmarki 3--5%. Aðild að GATT-samningunum er vissulega nauðsynleg fyrir okkur Íslendinga sem heild. En vel að merkja ber hæstv. ráðherra að sýna þann dug að standa að aðgerðum til að milda áhrifin. GATT-samkomulagið hefur gífurleg áhrif á lífsafkomu bænda. Margir þeirra eru komnir á ystu nöf. Staðan er þannig hjá mörgum bændum eftir stöðugan samdrátt í framleiðslu að þeir hafa gengið á eigur sínar og eignir og safnað skuldum. En það gengur ekki nema skamman tíma. Gjaldþrot blasir við allt of mörgum. Og hvernig búum við að þeim sem hafa fengið allan þennan samdrátt yfir sig, t.d. í sambandi við atvinnuleysistryggingar og tryggingamál?
    Það kom út reglugerð um atvinnuleysisbætur fyrir sjálfstætt starfandi einstaklinga. Ég get ekki séð að það hafi nokkur vandi verið leystur fyrir bændur í þeirri reglugerð nema örfáa og ég ætla að lesa hér nokkrar greinar, með leyfi forseta.
    ,,Sjálfstætt starfandi telst vera atvinnulaus þegar hann uppfyllir öll eftirfarandi skilyrði:
    1. Er hættur rekstri, sbr. 4.--6. gr.
    2. Hefur ekki tekjur eða tekjuígildi af rekstri.
    3. Hefur ekki hafið störf sem launamaður.
    4. Er sannanlega í atvinnuleit og getur tekið tilboðum um vinnu.
    5. Hefur tilkynnt lok rekstursins til opinberra aðila, sbr. 4. gr.
    6. Árstímabundin starfsemi eða tímabundið hlé vegna verkefnaskorts eða af öðrum ástæðum veitir sjálfstætt starfandi ekki rétt til atvinnuleysisbóta.``
    Þannig er búið að þessu að bændur þurfa að vera alveg steinhættir búskap til að ná fullum rétti og skilgreiningin á því hvenær menn eru hættir, það væri fróðlegt að fá svona smáskilgreiningu á því. Þurfa menn helst að vera fluttir líka? Það er kannski hægt að fá tekjur annað slagið með einhverjum smáhlunnindum eða nokkrum hrossum. Hvenær eru menn hættir störfum? Hvenær í ósköpunum haldið þið að það sé komið að því að þeir hafi rétt til atvinnuleysisbóta? Það væri fróðlegt að komast að því. Ég viðurkenni vel að þetta er snúið mál af því að það er nú þannig að með því að hafa nokkrar skepnur, þá er það ekki þannig að þú getir starfað hluta af árinu. Þetta eru lifandi skepnur en ekki dauðir hlutir. (Gripið fram í.) Hæstv. umhvrh. hefur mikinn áhuga á framsóknarmönnum í dag en hann verður að hafa það fyrir sig. (Umhvrh.: Mér þótti þetta rétt lýsing á þeim.)
    Hvernig halda hv. þm. að framtíðarsýn bænda sé í dag, t.d. sauðfjárbónda sem horfir yfir fjárhúsin sín hálftóm eftir stöðugan samdrátt og niðurskurð á framleiðslurétti og atvinnuástandið í þéttbýlisstöðunum í kring? Það er ekkert til að létta lund eða ná í viðbótarkrónur til framfæris. Og það er nú svo skrýtið að það voru til bændur sem trúðu því fram undir þetta að innflutningur í stórum stíl kæmi ekki til. Þeir trúðu vafalaust á sína ágætu sjálfstæðismenn til að verja sig á einhvern hátt fyrir því. Það er einfalt mál

að því meira sem flutt er inn af búvöru því færri hafa vinnu af því að framleiða hana hér á landi. Því vil ég brýna hæstv. landbrh. í því að halda vöku sinni. Það er vá fyrir dyrum hjá þúsundum Íslendinga sem er verið að taka lífsafkomuna frá.
    Stærsta málið úr því sem komið er fyrir bændastéttina er hvernig á málum verður haldið. Verðjöfnunargjaldið er það blaktandi hálmstrá sem eftir er eftir sigurgöngu krata í herferð þeirra gegn bændastéttinni.