Framleiðsla og sala á búvörum

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 23:26:49 (2977)


[23:26]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Það er alveg ljóst og liggur fyrir því dómur að hæstv. landbrh. fer með forræði innflutningsmála landbúnaðarafurða. Um það er ekki deilt. Í frv. segir svo orðrétt:
    ,,Nú heimilar ráðherra innflutning landbúnaðarvara og er honum þá heimilt að leggja á þann innflutning verðjöfnunargjöld til að jafna samkeppnisstöðu innlendra og innfluttra vara, í samræmi við 3. mgr.``
    Ég sé ekki annað en þessi setning sé mjög ljós og ótvíræð. Í 3. mgr. er síðan lýst hvernig með skuli fara. Þar er gert ráð fyrir því, sem er ekkert óeðlilegt, að hæstv. landbrh. beri sig saman við nefnd sem skipuð er auk fulltrúa hans fulltrúa fjmrh. sem fer með tolla- og skattamál og fulltrúa viðskrh. Og það er alveg ljóst, eins og stendur í textanum, að náist ekki samkomulag í þeirri nefnd, þá ber ráðherra málið undir ríkisstjórn áður en ákvörðunin er tekin. Hæstv. landbrh. hefur sagt sína skoðun á þessu forræðismáli og ég hef ekkert við það að athuga.