Prestssetur

66. fundur
Föstudaginn 17. desember 1993, kl. 23:42:25 (2982)


[23:42]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Það er auðvitað óþarfi að karpa um þetta. Það liggur fyrir að í frv. var gert ráð fyrir því að það þyrfti að koma til samþykki stjórnvalda. Annars vegar heimild í lögum til þess að selja prestssetrin, sem var almenn heimild, og síðan heimild ráðherra til þess að samþykkja hverja einstaka ráðstöfun. Sú breyting sem hér er nú gerð er að auk hinnar almennu heimildar til kirkjustjórnarinnar að hafa forræði í málinu, þá þarf nú samþykki bæði Alþingis og ráðherra til hverrar einstakrar ráðstöfunar á þessum eignum. Í því felst vissulega breyting, en engin grundvallarbreyting frá því sem áður var og engin afstöðubreyting að því er varðar það álitaefni hverjum kirkjueignirnar tilheyra. Hér er því ekki verið að kveða upp neinn dóm eða endanlega afstöðu í því efni, hvorki með upphaflega frv. né heldur þeirri breytingu sem hér er lögð til. Til þess álitaefnis munu menn taka afstöðu þegar viðræðunefndir ríkis og kirkju hafa lokið sínum störfum og fyrr ekki.